Garðar Gunnlaugsson hættir ekki að skora. Hann gerði þriðja mark Skagamanna gegn Fylki í gær og er markahæstur í deildinni með 13 mörk í 16 leikjum. Ljósm. gbh.

Skagamenn unnu sannfærandi sigur á Fylki

ÍA heimsótti Fylki í 16. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu í gærkvöldi. Skagamenn gerðu góða ferð í Árbæinn og sigruðu örugglega með þremur mörkum gegn engu.

Þrátt fyrir lipra sóknartilburði heimamanna á upphafsmínútum leiksins voru það Skagamenn sem komust yfir strax á 10. mínútu. Hallur Flosason átti þá góða fyrirgjöf frá hægri sem varnarmanni Fylkis mistókst að hreinsa frá. Boltinn féll því fyrir Albert Hafsteinsson sem lagði hann í markið og kom ÍA yfir.

Fylkismenn reyndu að svara fyrir sig og litlu munaði að þeir jöfnuðu metin nokkrum mínútum síðar. Eftir hornspyrnu barst boltinn á fjærstöng en Skagamenn björguðu á marklínu þegar heimamenn reyndu að pota boltanum í markið.

Á 27. mínútu fengu Skagamenn aukaspyrnu skammt utan teigs til hægri við vítateigsbogann. Darren Laugh tók spyrnuna og lét vaða. Spyrna hans var ekki sú besta en markvörður Fylkis missti boltann undir sig og Skagamenn komnir í 2-0. Skagamenn réðu lögum og lofum á vellinum eftir annað mark sitt og litlu mátti muna að þeir bættu við mörkum áður en hálfleiksflautan gall. Það varð hins vegar ekki svo og staðan 2-0 fyrir ÍA í leikhléi.

Síðari hálfleikur fór rólega af stað. Skagamenn flýttu sér hægt, létu boltann ganga á milli manna og stjórnuðu gangi leiksins. Fylkismenn voru ekki líklegir til afreka, þeirra besta tækifæri framan af síðari hálfleik var skot af 30 metra færi. Kann það ekki góðri lukku að stýra. Það voru enda Skagamenn sem bættu þriðja markinu við á 58. mínútu eftir laglegan samleik sem endaði með því að Hallur fékk boltann inni í vítateig Fylkismanna. Hann lagði boltann á Garðar Gunnlaugsson sem átti ekki í vandræðum með að skora. Garðar er nú kominn með 13 mörk í 16 leikjum og stefnir hraðbyri að markakóngstitlinum.

Leikurinn opnaðist aðeins eftir þriðja mark ÍA. Skagamenn voru líklegri til að bæta við fyrst eftir markið en Fylkismenn hefðu með smá áræðni og heppni einnig geta minnkað muninn á lokamínútum leiksins. Svo varð hins vegar ekki og sannfærandi þriggja marka sigur Skagamanna staðreynd. Liðið er nú í 6. sæti deildarinnar með 25 stig eftir 16 leiki, jafn mörg stig og Valur í sætinu fyrir ofan og aðeins tveimur stigum á eftir Fjölni, Stjörnunni og Breiðabliki í 2.-4. sæti. Næsti leikur Skagamanna er gegn Víkingi Reykjavík á Akranesvelli sunnudaginn 28. ágúst næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Heba Bjarg er dúx FVA

Föstudaginn 28. maí voru 55 nemendur brautskráðir frá Fjölbrautaskóla Vesturlands. Heba Bjarg Einarsdóttir var með bestan námsárangur á stúdentsprófi með... Lesa meira

Slaka á samkomutakmörkunum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur tilkynnt um slakanir á samkomutakmörkunum frá og með þriðjudeginum 15. júní. Almennar fjöldatakmarkanir fara úr 150... Lesa meira