Skagamenn semja við nýjan Bandaríkjamann

Nú um helgina náðist samkomulag milli Körfuknattleiksfélags ÍA og Bandaríkjamannsins Derek Dan Shouse um að Derek muni leika með félaginu á komandi leiktíð. Derek er 22ja ára bakvörður sem er 185 cm á hæð og getur leyst stöðu leikstjórnanda og skotbakvarðar. Derek er að stíga sín fyrstu spor sem leikmaður utan Bandaríkjanna en til gamans má geta að hann er sonur Danny Shouse sem gerði garðinn frægan með liði Njarðvíkur og Ármanns hér á árum áður. Samkvæmt Jóni Þór Þórðarsyni, þjálfara ÍA, eru vonir ÍA þær að Derek geti hjálpað liðinu að skila inn stigum utan af velli en ekki að hann skori hundrað stig í leik líkt og faðir hans gerði í leik með Ármanni gegn Skallagrími árið 1979.

ÍA hefur leik í fyrstu deildinni 6. október gegn FSu á útivelli. Þjálfaraskipti urðu hjá ÍA í sumar en þeir Fannar Helgason og Áskell Jónsson létu af störfum sem þjálfarar en munu þó spila áfram fyrir liðið. Við liðinu tók Skagamaðurinn Jón Þór Þórðarson og honum til aðstoðar verður Stefán Jóhann Hreinsson sem lék á árum áður með Tindastól og Þór Akureyri.

Líkar þetta

Fleiri fréttir