Þeir Keli Vert og Þórarinn aka um á Toyota Hilux, eðalpickup. Þeir munu safna áheitum fyrir Grensás, en þrjátíu ár eru síðan Keli lenti í alvarlegu bílslysi.

Fjórir Vestlendingar taka þátt í Rallý Reykjavík

Dagana 25. – 27. ágúst fer fram fjórða umferð  Íslandsmeistarmótsins í rallý; Rallý Reykjavík. Framkvæmd keppninnar er í höndum Bifreiðaíþróttaklúbbs Reykjavíkur en klúbburinn hefur staðið fyrir keppnishaldi frá árinu 1977. Keppnin sem oft er kölluð Alþjóðarallið er sú stærsta og erfiðasta á keppnistímabili rallökumanna hérlendis en eknir verða tæplega þúsund kílómetrar á þremur dögum, þar af rúmlega 300 km á sérleiðum. Undirbúningur fyrir keppnina er mikilvægur þar sem mikið reynir á úthald og einbeitingu ökumenn auk ástands og endingar bifreiða þeirra. Fjöldi þátttakenda í ár er rúmlega 40 eða yfir 20 áhafnir. Einungis ein erlend áhöfn tekur þátt að þessu sinni, verður hún í jeppaflokki enda á Land Rover Bowler.

Keppnin hefst fimmtudaginn 25. ágúst klukkan 16:45 með sérleið við Hvaleyrarvatn. Hefur sú leið stundum verið áhöfnum erfið en skemmst er að minnast hrakfara fyrrum Íslandsmeistara Hennings Ólafssonar og Árna Gunnlaugssonar en þeir veltu bifreið sinni á þessari fyrstu leið keppninnar síðastliðið sumar. Af öðrum sérleiðum keppninnar má nefna að ekið verður á föstudag um Bjallarhraun, í nágrenni Heklu og á Kvartmílubrautinni í Hafnarfirði. Á laugardag liggur leiðin upp í Borgarfjörð en ekið verður um Kaldadal og Tröllháls áður en haldið verður að Hengli. Dagurinn endar hjá Djúpavatni í nágrenni Hafnarfjarðar en úrslit ráðast oft á þeirri erfiðu leið. Er sú leið eins og leiðin um Hvaleyrarvatn ákaflega skemmtileg áhorfendaleið þar sem umhverfi er fallegt og hamagangur oft mikill hjá keppendum. Keppninni lýkur laugardaginn 27. ágúst klukkan 15.00 við Perluna með tilkynningu úrslita.

 

Fjórir Vestlendingar í keppni

Vestlendingar eiga sína fulltrúa í keppninni. Má þar fyrst nefna Íslandsmeistarann 2014 og 2015, Borgnesinginn Aðalsteinn Símonarson en hann keppir ásamt Sigurði Braga Guðmundssyni á Mitsubishi Evo 7. Þeir félagar leiða Íslandsmótið fyrir keppnina. Akurnesingarnir Gunnar og Jóhann Hafsteinssynir sem eru reyndir rallökumenn mæta nú til leiks í fyrsta sinn í sumar. Aka þeir á öflugum Ford Focus framdrifsbíl. Þorkell Símonarson sem betur er þekktur sem Keli vert keppir í jeppaflokki ásamt Þórarni K Þórssyni. Aka þeir á Toyota Hilux.

 

Rallað fyrir Grensás

Þeir Keli vert og Þórarinn minnast þess að um þessar mundir eru 30 ár síðan Keli lenti í alvarlegu bílslysi við Kleifará í Miklaholtshreppi. Keli, sem slasaðist mikið, var fluttur með sjúkraflugi suður til Reykjavíkur en að lokinni sjúkrahússvist tók við löng og ströng endurhæfing. Fór hún fram á Grensás og því hafa þeir félagar ákveðið að safna áheitum til styrktar deildinni undir heitinu „Rallað fyrir Grensás.“

Hægt verður að fylgjast með framvindu keppninnar á www.tryggvi.org/rallytimes sem og á Facebook.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Með sjaldgæfan blóðtappa

Skagamaðurinn Oliver Stefánsson, sonur Stefáns Þórs Þórðarsonar og Magneu Guðlaugsdóttur, og varnarmaður sænska úrvalsdeildarfélagsins Norrköping, verður frá næsta hálfa árið... Lesa meira