Jafntefli í baráttuleik í Ólafsvík

Í kvöld mættust lið Víkings Ó. og Fjölnis á Ólafsvíkurvelli í sextándu umferð Pepsi deildar karla í knattspyrnu. Víkingur var fyrir leikinn í níunda sæti með átján stig en Fjölnir í öðru sæti með 27 stig. Leiknum í kvöld lauk með 2-2 jafntefli og því mikilvægt stig fyrir Víking til þess að halda sig frá fallbaráttunni.

Víkingar byrjuðu leikinn vel og strax á sjöunda mínútu skallaði Kenan Turudija boltann inn af stuttu færi eftir frábæran undirbúning Hrvoje Tokic.

Mikil barátta var í fyrri hálfleik og leikurinn skemmtilegur. Lokamínútur fyrri hálfleiks voru einkum fjörlegar. Á 38. mínútu leiksins nýtti Marcus Solberg sér einbeitingarleysi í vörn Víkings. Eftir langa sendingu Fjölnis fram völlinn var Solberg sloppinn einn í gegn og lagði boltann milli fóta Cristians Martinez í marki Víkings.

Fjölnismenn gátu ekki fagnað lengi því þremur mínútum síðar komst Víkingur yfir þegar boltinn hrökk á Þorstein Má Ragnarsson eftir að varnarmaður Fjölnis hitti ekki boltann þegar hann ætlaði að hreinsa boltann í burtu. Þorsteinn Már skilaði boltanum í netið eins og sóknamanni sæmir.

Emir Dokara fékk að líta rauða spjaldið rétt fyrir hálfleik. Emir lyfti sólanum of hátt upp og sparkaði í höfuð Martins Lund Petersen. Staðan því 2-1 fyrir Víkingi þegar tíu leikmenn Víkings mættu til leiks í síðari hálfleik.

Í síðari hálfleik voru Víkingar þéttir til baka, eðlilega enda manni færri og freistuðu þess að halda sigrinum, meðan Fjölnismenn sóttu.

Þegar leið á síðari hálfleikinn þyngdist sókn Fjölnismanna jafnt og þétt. Það endaði með því að Fjölnir náði að koma boltanum í netið á 75. mínútu. Þórir Guðjónsson átti þá fasta og góða aukaspyrnu hægra megin við vítateiginn sem rataði á kollinn á Solberg sem skallaði boltann í netið af mjög stuttu færi.

Fjölnir sótti mjög stíft það sem eftir lifði leiks en Víkingar sýndu mikla baráttu og uppskáru stig úr leiknum. Stigið var mikilvægt og gæti reynst dýrmætt þegar tímabilið klárast 1. október.

Víkingar sitja eftir leikinn enn í níunda sæti en stiginu ríkari. Næsti leikur Víkings er sunnudaginn 28. ágúst næstkomandi gegn efsta liði deildarinnar, FH, í Ólafsvík.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.