KSÍ veitir 453 milljónum til aðildarfélaga

Vegna þátttöku íslenska karlalandsliðsins á EM í Frakklandi mun Knattspyrnusamband Íslands greiða 453 milljónir króna til aðildarfélaga sinna. Á ársþingi KSÍ í febrúar var tilkynnt að greitt yrði sérstakt EM framlag, 300 milljónir eða um fjórðungur af greiðslu Evrópska knattspyrnusambandsins UEFA. Í samræmi við auknar greiðslur frá UEFA vegna góðs gengis karlalandsliðsins á mótinu hefur KSÍ ákveðið að hækka framlag til aðildarfélaga sinna í áðurnefndar 453 milljónir. Framlaginu skulu aðildarfélög eingöngu verja til knattspyrnutengdra verkefna.

Stjórn KSÍ hefur ákveðið hvernig greiðslunum skal skipt á milli félaga. Tekur upphæð til hvers félags fyrst og fremst mið af stöðu meistaraflokka í karla- og kvennadeildum Íslandsmótsins síðastliðin þrjú ár. Félögunum er síðan skipt upp í þrjá flokka eftir árangri og starfi síðustu ára. Í fyrsta flokki eru þau 17 félög sem bestum árangri hafa náð í deildarkeppninni og hafa þau 181 milljón króna til skiptanna. Í öðrum flokki eru þau 30 félög sem koma þar á eftir með 140 milljónir til skiptanna. Þriðji flokkurinn er síðan skipaður 28 félögum sem ekki standa fyrir barna- og unglingastarfi. Fá þau félög 2,8 milljónir til skiptanna, eða hundrað þúsund krónur hvert.

 

ÍA og Víkingur fá væna styrki

Knattspyrnufélög á Vesturlandi fá sinn skerf af EM framlaginu. ÍA fær mest, rétt rúmar 17 milljónir króna, þá Víkingur Ólafsvík sem fær rétt tæpar 14,3 milljónir. Snæfell og Skallagrímur fá síðan rétt rúmar tvær og hálfa milljón hvort félag. „Þeir fjármunir sem nú skila sér til knattspyrnufélaga á Íslandi skipta aðildarfélögin verulegu máli. Stjórn KSÍ væntir þess að þeim verði ráðstafað til verkefna sem skili bættu starfi til lengri tíma,“ segir á vef knattspyrnusambandsins. Eins og fram kom í frétt Skessuhorns í gær hefur ÍA þegar ákveðið að allur styrkurinn renni óskiptur til æskulýðsstarfs KFÍA.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stangveiðar með drónum

Þegar blaðamaður Skessuhorns renndi niður Facebook í morgun rakst hann á athyglisverða auglýsingu. Þar auglýsti Suður-Afríska fyrirtækið Gannet búnað fyrir... Lesa meira