Stund milli stríða í púttkeppninni.

Borgfirðingar í þriðja sæti í púttkeppni FÁÍA

Baráttan var æsispennandi um fyrsta sætið á Íslandsmóti Félags áhugafólks um íþróttir aldraðra (FÁÍA) í pútti 60 ára og eldri. Mótið fór fram í Reykjanesbæ síðastliðinn fimmtudag. Fjórir keppendur voru þar jafnir í karlaflokki á 66 höggum og réðust úrslit í bráðabana. Eftir bráðabanann lá fyrir að Aðalbergur Þórarinsson hafði tryggt sér fyrsta sætið, Hafsteinn Guðnason varð annar og Ingimundur Ingimundarson í Borgarnesi þriðji. Í kvennaflokki var Eydís Eyjólfsdóttir í fyrsta sæti, Álfheiður Einarsdóttir í öðru sæti en Jytta Juul í Borgarfirði þriðja.

Metþátttaka var á Íslandsmótinu enda blíðskaparveður. Til leiks voru skráðir 94 keppendur frá ellefu félögum og komu sumir langt að. Allar félagsmiðstöðvar eða aðrir staðir um allt land þar sem aldraðir æfa pútt gátu sent keppendur eða lið á mótið. Flestir keppenda eru gamlar kempur úr ungmennafélagshreyfingunni. Keppendur voru á ýmsum aldri og var sá elsti 95 ára. Mótið var keppni á milli einstaklinga, karla og kvenna, en einnig var boðið upp á liðakeppni og voru fjórir í hverju liði. Púttklúbbur Suðurnesja átti veg og vanda að mótahaldinu í samstarfi við FÁÍA.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stangveiðar með drónum

Þegar blaðamaður Skessuhorns renndi niður Facebook í morgun rakst hann á athyglisverða auglýsingu. Þar auglýsti Suður-Afríska fyrirtækið Gannet búnað fyrir... Lesa meira