Skagakonur komnar í baráttuna um að halda sæti sinu í deildinni

Í gær fór fram leikur Selfoss og ÍA á Selfossvelli í tólftu umferð Pepsi deildar kvenna. Leikurinn var býsna mikilvægur fyrir Skagakonur en fyrir leikinn voru þær á botni deildarinnar með fimm stig. Leikurinn var nær síðasti séns ÍA að komast í baráttuna um að halda sæti sínu í deildinni en stígandi hefur verið í leik Skagakvenna í síðustu leikjum eftir slæma byrjun á mótinu. Skagakonur unnu leikinn 2-1 og komust því upp um eitt sæti. ÍA er nú tveimur stigum frá Selfossi og að koma sér úr fallsæti.

Skagakonur virtust koma alveg rétt stemmdar inn í leikinn í gær og byrjuðu hann af miklum krafi. Fyrsta mark leiksins kom eftir aðeins sex mínútna leik. Eftir misheppnaða hreinsun í vörn Selfyssinga náði Cathrine Dyngvold boltanum við vítateigslínuna og á gott skot sem fer af varnarmanni og í netið. Skagakonur bættu við marki í fyrri hálfleik. Á tuttugustu mínútu átti Aníta Sól Ágústsdóttir sendingu inn í teig Selfyssinga þar sem Megan Dunnigan náði fínu skalla sem endaði í marki Selfoss. Leikurinn var lifandi og skemmtilegur og aðeins sjö mínútum eftir mark Skagakvenna skoraði Selfoss sitt fyrsta mark. Alyssa Telang fékk boltann við miðlínu, hljóp með hann í átt að marki ÍA og tók skot af löngu færi. Skotið var stórgott og Ásta Vigdís Guðlaugsdóttir kom engum vörnum við. Staðan því orðin 2-1.

Í síðari hálfleik var mikil barátta og það skein í gegn að Skagakonur ætluðu sér að landa sigri. Selfoss sótti meira en Skagakonur voru öflugar í vörninni. Á 73. mínútu kom upp mjög umdeilt atvik. Selfoss skoraði mark eftir hornspyrnu en markið var dæmt af. Selfyssingar voru vægast sagt óánægðir. Fáir á vellinum virtust skilja dóm aðstoðardómarans en af myndbandsupptökum að dæma virðist ekkert hafa gerst inni í teignum. Mögulega hefur boltinn farið út fyrir endalínu þegar hann var á leiðinni inn í teig og það sé ástæða dómsins. Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum og lönduðu Skagakonur mikilvægum sigri á Selfossi.

Næsti leikur ÍA kvenna er ekki síður mikilvægur en þá mæta þær liði Fylkis á heimavelli ÍA. Leikurinn fer fram næstkomandi miðvikudag, 24. ágúst en með sigri í þeim leik geta Skagakonur náð sér úr fallsæti.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Krufning í FSN

Nemendur í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði voru önnum kafnir í einni skólastofunni í síðustu viku er fréttaritara Skessuhorns bar að... Lesa meira