ÍA ætlar að nýta EM framlagið í uppeldisstarfið

Eins og fram kom í Skessuhorni fyrr í vikunni ætlar KSÍ að greiða 453 milljónir krónur af EM tekjum sínum til aðildarfélaga sambandsins. KSÍ setti það skilyrði að peningunum yrði aðeins varið í knattspyrnutengda starfsemi félaganna.  Töluverð umræða hefur skapast um hvernig nýta skuli fjármunina og hafa margir gagnrýnt KSÍ fyrir að fara ekki að ráðum Lars Lagerbäck, fyrrverandi landsliðsþjálfara Ísland, en hann sagði að best væri að skylda félögin til þess að nota fjármunina í uppeldisstarf. Félögin hafa fæst gefið út hvernig peningurinn skuli vera nýttur. Skagamenn fengu einna hæstu upphæðina frá KSÍ, eða 17 milljónir króna. ÍA birti strax í kjölfarið tilkynningu þar sem félagið kveðst ætla að nýta alla fjármunina í uppeldisstarf félagsins. „Iðkendur í Knattspyrnufélagi ÍA eru nú um 530 talsins á breiðu aldursbili og er starfsemin í miklum blóma eins og mörg undanfarin ár. Skagamenn gera miklar kröfur um að eiga knattspyrnulið í fremstu röð á Íslandi og krafan er einnig rík um að byggja á heimamönnum þar sem öflugt barna og unglingastarf er undirstaðan.

Á grundvelli framangreinds og þeirrar stefnu sem Knattspyrnufélag ÍA starfar eftir ákvað stjórn félagsins þann 11. ágúst síðastliðinn að svokölluðu EM framlagi frá KSÍ yrði ekki varið til rekstrar heldur í sérstök framfaraverkefni á næstu árum. Framlagið er samtals um 17 milljónir króna. Vinnuhópur innan félagsins vinnur að tillögugerð í þessum efnum.

Knattspyrnufélag ÍA ætlar að virða uppruna EM fjármuna og beina þeim í verkefni sem eru til þess fallinn að efla yngri iðkenndur og með því auka líkurnar á því að enn fleiri afreksmenn skili sér úr því góða starfi sem fram fer hjá félaginu,” segir Magnús Guðmundsson formaður Knattspyrnufélags ÍA í tilkynningu sem birt var á vef félagsins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Krufning í FSN

Nemendur í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði voru önnum kafnir í einni skólastofunni í síðustu viku er fréttaritara Skessuhorns bar að... Lesa meira