
Skallagrímur fær efnilegan leikmann
Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur samið við Eyjólf Ásberg Halldórsson um að leika með liðinu í Domino‘s deild karla í körfuknattleik á komandi vetri.
Eyjólfur er fæddur árið 1998 og er því 18 ára gamall. Hann er uppalinn hjá KR en lék á síðasta tímabili með liði ÍR sem varð Íslandsmeistari í drengjaflokki. Var hann valinn besti leikmaður úrslitaleiksins þar sem hann skoraði 24 stig, tók 13 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Þá hefur Eyjólfur leikið með öllum yngri landsliðum Íslands og var lykilmaður U18 ára liðsins á Evrópumótinu sem fram fór í sumar.
Hann er rúmlega 190 sentímetrar á hæð, fjölhæfur leikmaður sem getur leyst flestar stöður á vellinum. „Hann smellpassar inn í þann leikstíl sem Finnur Jónsson þjálfari hyggst láta liðið leika á komandi tímabili og er því frábær viðbót í liðið enda gríðarlega efnilegur og fjölhæfur leikmaður,“ segir í tilkynningu frá kkd. Skallagríms.
Davíð Guðmundsson áfram í Borgarnesi
Þá hefur bakvörðurinn Davíð Guðmundsson skrifað undir endurnýjaðan tveggja ára samning við kkd. Skallagríms. Davíð er uppalinn hjá Skallagrími en hóf síðasta tímabil í búningi Breiðabliks áður en hann sneri aftur í Borgarnes um áramót.
Davíð er skytta góð, lék vel með Skallagrími á síðasta tímabili og átti sinn þátt í því að liðið tryggði sér sæti í deild þeirra bestu á nýjan leik.
- Davíð Guðmundsson í leik með Skallagrími. Ljósm. Skallagrímur.