Frá undirritun ráðningarsamnings í gærkvöldi. F.v. Sævar Freyr Þráinsson, varaformaður KFÍA, Hulda Birna Baldursdóttir, nýráðinn framkvæmdastjóri og Magnús Guðmundsson formaður. Ljósm. KFÍA.

Hulda Birna Baldursdóttir er nýr framkvæmdastjóri KFÍA

Hulda Birna Baldursdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Knattspyrnufélags ÍA. Tekur hún við starfinu þriðjudaginn 1. nóvember næstkomandi af fráfarandi framkvæmdastjóra Haraldi Ingólfssyni. Þangað til mun hún taka þátt í einstökum verkefnum félagsins og kynna sér starfið. „Það er mjög spennandi að ganga til liðs við KFÍA á þessum tímapunkti. Ég þekki vel til félagsins, lék með yngri flokkum félagsins og meistaraflokki í nokkur ár,“ segir Hulda Birna á heimasíðu KFÍA, en hún lék einnig BÍ og Stjörnunni á sínum knattspyrnuferli. „Markmiðið er að koma KFÍA í fremstu röð og keppa um titla á komandi árum. Það verður gert með því að því að byggja á öflugu uppeldis- og afreksstarfi og vera með þjálfara í fremstu röð. Ég tek nýjum áskorunum fagnandi og hlakka til að starfa með öflugum hópi stjórnar, starfsmanna, iðkenda og þjálfara KFÍA,“ segir Hulda Birna.

Hulda Birna er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og með meistarapróf í stjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Hún starfaði áður sem markaðsstjóri Tækniskólans og framkvæmdastjóri Stelpugolfs PGA á Íslandi. Hún situr í stjórn PGA og hefur verið formaður barna- og unglingaráðs í Fylki undanfarin þrjú ár.

Líkar þetta

Fleiri fréttir