Plan-B artfestival var um helgina

Óhætt er að segja að hópur ungs listafólks hafi verið áberandi í Borgarnesi og nágrenni síðustu vikuna eða svo. Listahátíðin Plan-B artfestival hófst með listasmiðju í síðustu viku en lauk með sýningarhaldi og skemmtunum um helgina. Hátíðin er fjölþjóðleg, en um 20 listamenn af sjö mismunandi þjóðernum tóku þátt og komust færri að en vildu. Listafólkið stundaði fjölbreytta listsköpun þar sem hljóð, mynd, grafík og allskyns listform voru áberandi, margar útfærslur nútíma listar. Verkin spönnuðu allt frá olíumálverkum og innsetningum til vídeóverka.

Mörg af helstu kennileitum Borgarness voru nýtt sem sýningarrými á meðan hátíðinni stóð. Sjálf opnunarhátíðin var í gamla Mjólkursamlagshúsinu við Skúlagötu sem Pétur Geirsson eigandi hússins hafði léð listafólkinu. Þá var sýnt í fjósinu í Einarsnesi, Landnámssetrinu og í Englendingavík. Loks var vinnuaðstaða listafólksins í félagsheimilinu Valfelli þar sem einnig var slegið upp partíi á Laugardagskvöldinu. Fleiri myndir birtast í næsta Skessuhorni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir