Mynd frá fyrri leik ÍA og Víkings í sumar/ Ljósm. Alfons Finnsson

Skagamenn unnu sannfærandi í Vesturlandsslagnum

Nú fyrr í kvöld á Akranesvelli mættust lið ÍA og Víkings frá Ólafsvík í fimmtándu umferð Pepsi deildar karla í knattspyrnu. Fyrir leikinn voru Skagamenn í áttunda sæti með nítján stig en Víkingur í sæti neðar með átján stig. Það hefur verið sannkölluð Ólafsvíkurgrýla á Akranesi í efstu deild. Liðin höfðu þrisvar sinnum mæst í efstu deild fyrir leikinn í kvöld og höfðu Víkingar unnið alla leikina; síðast þegar Víkingur heimsótti Akranesvöll í efstu deild lauk leik með 5-0 sigri Víkings. Skagamenn náðu loks að vinna bug á Ólafsvíkurgrýlunni í kvöld og sigruðu leikinn sannfærandi 3-0.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en það voru Skagamenn sem skoruðu fyrsta mark leiksins á 36. mínútu leiksins. Skagamenn sendu langan háann bolta fram völlinn sem Arnar Már Guðjónsson náði að flikka áfram á Þórð Þorstein Þórðarson hægra megin á vellinum. Þórður tók vel á móti boltanum og tók fáeinar snertingar inn í teig áður en hann skaut boltanum í stöngina og inn, frábært mark hjá Þórði. Markið var það eina sem skorað var í fyrri hálfleik og staðan því 1-0 að loknum 45 mínútum.

Síðari hálfleikur fór rólega af stað en Víkingar mættu þó örlítið grimmari til leiks. Skagamenn náðu að vinna sig betur inn í leikinn og á 66. mínútu átti Tryggvi Hrafn Haraldsson, nýkominn inn á sem varamaður, góða sendingu inn fyrir vörn Víkinga þar sem Garðar Gunnlaugsson slapp einn í gegn og lék á Cristian Martinez í marki Ólafsvíkur og renndi boltanum í markið. Tólfta mark Garðars í sumar sem er langmarkahæstur í deildinni en í öðru sæti er Hrvoje Tokic með átta mörk.

Eftir annað markið virtist slokkna á piltunum frá Ólafsvík og það voru Skagamenn sem skoruðu þriðja og síðasta mark kvöldsins. Á 85. mínútu gaf Albert Hafsteinsson góða sendingu á kantinn á Tryggva Hrafn sem átti frábæra sendingu inn í teiginn á Arnar Má sem stangaði boltann af miklum krafti í markið. Staðan orðin 3-0 sem urðu lokatölur leiksins.

Mínútu eftir síðasta mark Skagamann var gerð skipting á liði ÍA sem er ekki frásögu færandi nema fyrir þær sakir að leikmaðurinn sem kom inn á var að spila sínar fyrstu mínútur fyrir ÍA á Íslandsmóti. Af velli fór Þórður Þorsteinn Þórðarson og inn á í hans stað kom litli bróðir hans, Stefán Teitur Þórðarson.

Með sigrinum fór Skagamenn upp í fimmta sætið, í það minnsta tímabundið, með 22 stig en Víkingar sitja enn í því níunda með átján stig. Næsti leikur Víkinga er næstkomandi sunnudag gegn liði Fjölnis á heimavelli en Skagamenn eiga útileik gegn Fylki næstkomandi mánudag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir