Einar Hjörleifsson varði vítaspyrnu Garðars Gunnlaugssonar í leik Víkings og ÍA fyrr í sumar. /Ljósm. Alfons Finnsson

Ná Skagamenn að kveða niður Ólafsvíkurgrýluna?

Klukkan 18:00 í kvöld fer fram á Akranesvelli Vesturlandsslagur í knattspyrnu. Þá mæta Skagamenn Víkingi Ólafsvík í fimmtándu umferð Pepsi deild karla. Fyrir leikinn eru Skagamenn í áttunda sæti með nítján stig en Víkingar í sætinu fyrir neðan með átján stig. Bæði lið hafa átt sína góðu spretti í sumar, Víkingar í upphafi sumars en Skagamenn nýverið þegar þeir sigruðu fimm leiki í röð. Víkingar hafa verið í vandræðum undanfarið og ekki unnið leik síðan í lok júní og Skagamenn hafa tapað síðustu tveimur leikjum eftir fimm leikja sigurhrinu.

Það má með sanni segja að það sé Ólafsvíkurgrýla á Akranesi þegar kemur að leikjum þessara liða í efstu deild. Liðin hafa mæst þrisvar sinnum í efstu deild í gegnum tíðina. Tvisvar sinnum árið 2013 og einu sinni í ár. Víkingar hafa unnið alla þessa þrjá leiki. Skagamenn eiga harma að hefna á heimavelli því síðast þegar liðin mættust þar sigraði Víkingur sannfærandi 5-0. Leikurinn var lokaleikur tímabilsins 2013 og ráku Víkingar þar með síðasta naglann á bólakaf í líkkistu Skagamanna það árið en Skagamenn slógu með tapinu met með því að fá aðeins ellefu stig í tólf liða deild. Það met var svo slegið í fyrra af Keflvíkingum sem enduðu með tíu stig. Víkingar fögnuðu stórsigrinum 2013 ekki innilega þar sem þeir féllu með Skagamönnum niður um deild.

Það má búast við spennuþrungnum og skemmtilegum leik þegar Vesturlandsliðin mætast á eftir eins og alltaf þegar mikið er undir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir