Miklar endurbætur á reiðvellinum á Æðarodda

Búið er að gera miklar endurbætur á æfinga- og keppnisvelli hestamannafélagsins Dreyra á Æðarodda. Gamla efnið í vellinum var fjarlægt og völlurinn réttur af en síðan var lagt nýtt efni ofan á. Það er 0-8 mm brotið efni sem er leirkennt og virðist ætla að setjast vel. Loks var upphitunarvöllurinn einnig skafinn og sett á hann þunnt lag af 0-25 mm efni og hann loks valtaður. Að sögn Ásu Hólmarsdóttur formanns Dreyra hafði efni sem sett var á völlinn fyrir tveimur árum ekki verið að reynast vel. Það hafi orðið blautt og sleipt í vætutíð en glerhart í þurrkum. Hún vonast til að nýtt efni og þessi vinna eigi eftir að gera keppnisvöllinn þannig að allir geti orðið sáttir; hestar og menn. Ása segir að nánast öll vinna við endurgerð reiðvallarins hafi verið unnin í sjálfboðavinnu, en félagið staðið straum af kaupum á efni og olíu á vélarnar.

Nýi keppnisvöllurinn verður síðan vígður um næstu helgi þegar Norðurálsmótið í hestaíþróttum verður haldið á Æðarodda. Opið er fyrir skráningar á mótið og öllum frjálst að keppa.

Líkar þetta

Fleiri fréttir