Myndin sýnir Oddnýju og Halldór Sigurbjörnsson á kvöldskemmtun húsmæðraorlofsviku Kaupfélags Borgfirðinga á Bifröst árið 1956. Ljósm. Trausti Jónsson á Facebook.

Bjóða á afmælistónleika Oddnýjar

Oddný Þorkelsdóttir í Borgarnesi verður 96 ára á fimmtudaginn kemur, 18. ágúst. Fjölskylda hennar ætlar að halda upp á daginn með tónleikum í Borgarneskirkju sem hefjast klukkan 19:30. Á dagskránni verða sönglög sem minna á gamla tíma í stofunum við Skúlagötu. Þar fóru fram æfingar fyrir fjölmargar söngdagskrár og innskot á skemmtunum í Héraðinu á árum áður. Sum laganna eru alþekkt en önnur hálfgleymd eða gleymd, að sögn Trausta Jónssonar veðurfræðings, sonar Oddnýjar, sem á frumkvæði að tónleikahaldinu.

Flytjendur á tónleikunum verða allir úr héraðinu, rétt eins og oftast var við Skúlagötuna. Söngvarar eru þau Sigríður Ásta og Hanna Ágústa Olgeirsdætur, Kristján Ágúst Magnússon og Magnús Kristjánsson, Jónína Erna Arnardóttir leikur með á píanó og stjórnar tónflutningi. „Aðgangur er ókeypis og gaman væri að sjá sem flesta. Reiknað er með að tónleikarnir taki um það bil klukkustund, hlé er ekkert og veitingar engar. Verið velkomin,“ segir í tilkynningu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir