Soffía II í tröðinni heima við skólahúsið í Ólafsdal. Ljósm. Steinþór Logi Arnarsson.

Myndasyrpa frá Ólafsdalshátíð

Ólafsdalshátíð var haldin níunda sinni laugardaginn 6. ágúst síðastiðinn í Ólafsdal við Gilsfjörð. Að sögn Rögnvaldar Guðmundssonar, formanns Ólafsdalsfélagsins, sóttu um 500 gestir Ólafsdal heim á meðan hátíðinni stóð. „Mæting var með mesta móti og veðrið lék við okkur allan tímann,“ segir Rögnvaldur og bætir því við að töluvert margt fólk hafi ákveðið að dvelja í Ólafsdal um tíma. Hann segir að dagskráin hafi mælst vel fyrir meðal gesta. Ómar Ragnarsson hafi vakið lukku og ekki síður Lína Langsokkur, leikin af Ágústu Evu Erlendsdóttur. „Lína var mjög öflug. Söng fyrir krakkana og lék síðan við þá. Þá tók hún sig til og lyfti nokkrum körlum sem eru vel yfir hundrað kílóin og hélt þeim í bóndabeygju,“ segir Rögnvaldur, en Lína er sem kunnugt er sterkasta stelpa í heimi.

„Rútuferðin með Soffíu II kringum Gilsfjörð, þar sem Sveinn Ragnarsson á Svarfhóli var leiðsögumaður, sló í gegn. Farin var ein ferð með fulla rútu um morguninn og síðan auka ferð með starfsfólk síðar um daginn,“ segir Rögnvaldur. „Sú sem gerði upp rútuna, Elínborg Kristinsdóttir, ólst einmitt upp í Ólafsdal að hluta, þó rútan hafi upphaflega verið smíðuð í Reykholti í Borgarfirði,“ segir hann. „En þetta gekk allt saman alveg ljómandi vel og hátíðin var mjög vel heppnuð í alla staði,“ segir Rögnvaldur að lokum.

Í Skessuhorni vikunnar er meðal annars að finna myndasyrpu frá Ólafsdalshátíð.

Líkar þetta

Fleiri fréttir