Albert, Tryggvi og Þórður. Ljósm. KFÍA.

Þrír leikmenn framlengja samninga við meistaraflokk ÍA

Þeir Albert Hafsteinsson, Tryggvi Hrafn Haraldsson og Þórður Þorsteinn Þórðarson hafa allir framlengt samninga sína við ÍA út leiktímabilið 2018.  Þessir ungu leikmenn hafa sýnt það og sannað að þeir eru tilbúnir í að spila í efstu deild og eiga framtíðina fyrir sér. „Það er mikið ánægjuefni að búið sé að framlengja samninga við þessa efnilegu leikmenn sem ætlunin er að byggja á í framtíðinni,“ segir Gunnlaugur Jónsson þjálfari meistaraflokks karla. Hann segir að félagið hafi stigið risastór skref á undanförnum árum í að byggja upp lið þar sem að traust er veitt ungum leikmönnum. „Þessir leikmenn hafa staðið undir því trausti og eru þess reiðubúnir að verða lykilleikmenn hjá félaginu á komandi árum,“ segir Gunnlaugur.

Albert er 20 ára miðjumaður og hefur leikið 30 leiki í Pepsi deild þrátt fyrir ungan aldur og það sama má segja um bakvörðinn Þórð sem er 21 árs og hefur leikið 33 leiki í Pepsi deildinni.  Báðir stigu þeir sín fyrstu skref í Pepsi deildinni á síðasta ári með gríðarlega góðri frammistöðu. Báðir léku þeir lykilhlutverk í liðinu sem hafnaði í sjöunda sæti á sínu fyrsta ári í Pepsi deild. Tryggvi er tvítugur sóknarleikmaður og lék sína fyrstu leiki í Pepsi deildinni undir lok síðasta keppnistímabils eftir erfitt meiðslatímabil. Hann hefur spilað tólf leiki í Pepsi deildinni. Tryggvi sem var í láni hjá Kára í upphafi tímabils kom til baka í júní og hefur átt stóran þátt í velgengni liðsins síðan.

Líkar þetta

Fleiri fréttir