Cristian Martinez markmaður Víkings var verðskuldað kosinn besti maður liðsins. Forðaði hann liði sínu ítrekað að fá á sig fleiri mörk. Hér afhenda þær vinkonur Alexandra Elvan Óskarsdóttir og Silvia Dís Sceving honum gjafarbréf. Ljósm. af.

Víkingur Ólafsvík tapaði fyrir ÍBV

Á Ólafsvíkurvelli fór í gær fram leikur Víkings og ÍBV í fjórtándu umferð Pepsi deildar karla í knattspyrnu. Bæði lið hafa verið í basli í deildinni að undanförnu en bæði byrjuðu þau mótið vel. Leikurinn endaði með 1-0 sigri ÍBV. Fyrsta mark og eina mark leiksins kom eftir fimm mínútna leik. Derby Carrillo, markmaður ÍBV, tók útspark eftir að Tokic hafi skallað framhjá marki ÍBV. Derby sendi langan bolta fram úr útsparkinu sem endaði með því að Gunnar Heiðar Þorvaldsson komst einn inn fyrir vörn Víkings og vippaði boltanum laglega yfir Cristian Martinez í marki Ólafsvíkur. Eyjamenn hafa saknað Gunnars í sumar en þessi öflugi framherji hefur verið meiddur í langan tíma; hann spilaði sinn fyrsta leik í byrjunarliði í sumar í gær.

Eyjamenn voru mikið betri aðilinn í fyrri hálfleik og fengu færi til þess að bæta við forystuna en þeim tókst það ekki og staðan því 1-0 þegar haldið var til búningsklefa í hálfleik.

Leikurinn var bragðdaufur í síðari hálfleik en ÍBV var betri aðilinn framan af. Víkingur vaknaði þó til lífsins þegar leið á hálfleikinn en fleiri mörk voru ekki skoruð.

Víkingur situr nú í áttunda sæti deildarinnar með átján stig, stigi á undan ÍBV sem er í níunda sæti. Næsti leikur Víkings er gegn Skagamönnum á Akranesvelli mánudaginn 15. ágúst. Búast má við fjölmenni á vellinum, enda Vesturlandsslagur skemmtileg augnablik í boltanum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir