Skagamenn steinlágu fyrir Fjölni

Á Fjölnisvelli í Grafarvogi fór fram leikur Fjölnis og ÍA í gær í fjórtándu umferð Pepsi deildar karla í knattspyrnu. Fjölnismenn hafa komið flestum á óvart á tímabilinu og eru í harðri baráttu um Íslandsmeistaratitilinn. Skagamenn hafa einnig komið mörgum á óvart en fyrir tímabilið spáðu margir Skagamönnum falli. Þeir hafa hins vegar spilað vel á undanförnu og eru um miðja deild. Skagamenn reyndust þó ekki mikil fyrirstaða í gær og unnu Fjölnismenn mjög sannfærandi 4-0 sigur í leik sem Skagamenn sáu aldrei til sólar í.

Ármann Smári Björnsson hefur verið einn besti leikmaður Skagamanna á leiktíðinni og virtist mikilvægi hans koma bersýnilega í ljós í leiknum. Ármann Smári fór meiddur af velli þegar korter var búið af leiknum. Tveimur mínútum síðar skoruðu Fjölnismenn sitt fyrsta marki. Marcus Solberg náði boltanum á undan Árna Snæ í marki Skagamanna, fór vinstra megin í teiginn þar sem sendi boltann fyrir þar sem Gunnar Már Guðmundsson skoraði með skalla. Á 38. mínútu bættu Fjölnismenn við marki. Marcus Solberg og Arnór Snær, varnarmaður ÍA, börðust um boltann rétt fyrir utan vítateig Skagamanna eftir sendingu Gunnars Más á Marcus. Arnór virtist ætla vinna þá baráttu en féll skyndilega við, Marcus stóð þá einn gegn Árna Snæ í markinu og setti hann snyrtilega í netið. Skagamenn voru ósáttir og töldu að Marcus hafi brotið á Arnóri en ekkert var dæmt og staðan því orðin 2-0.

Í síðari hálfleik, rétt eins og í þeim fyrri, stjórnuðu Fjölnismenn ferðinni. Þeir voru hættulegri sóknarlega auk þess sem þeir stoppuðu flest allar sóknaraðgerðir Skagamanna í fæðingu. Á 53. mínútu sendi Viðar Ari, bakvörður Fjölnis, boltann fyrir markið þar sem miðvörðurinn Hans Viktor Guðmundsson kom boltanum í markið.

Fjölnismenn voru ekki saddir eftir mörkin þrjú því þeir bættu því fjórða við. Undir lok leiksins skallaði Gunnar Már að marki Skagamanna eftir hornspyrnu þar sem boltinn fór í Arnar Már Guðjónsson leikmann Skagamanna og inn í markið. Lokatölur 4-0, sanngjarn sigur Fjölnis.

Skagamenn keppa næst mánudaginn 15. ágúst í Vesturlandsslag gegn Víkingi Ó. á Akranesvelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir