Megan Dunnigan jafnaði metin fyrir ÍA í leiknum gegn Þór/KA. Hún hefur skorað fjögur af fimm mörkum liðsins í deildinni í sumar. Ljósm. gbh.

Skagakonur náðu í mikilvægt stig

ÍA nældi í mikilvægt stig í botnbaráttu Pepsi deildar kvenna í knattspyrnu þegar liðið gerði jafntefli við Þór/KA í gær. Leikurinn var sá ellefti í sumar og fór fram á Akranesvelli. Var þetta jafnframt fyrsti leikur Skagakvenna undir stjórn hjónanna Steindóru Steinsdóttur og Kristins H. Guðbrandssonar, en þau tóku nýverið við þjálfun liðsins af Þórði Þórðarsyni.

Gestirnir frá Akureyri byrjuðu af krafti en það voru Skagakonur sem fengu betri færin á upphafsmínútum leiksins. Þær áttu góðan skalla eftir hornspyrnu og skoruðu mark sem var réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Fyrsta mark leiksins kom á 25. mínútu og það voru gestirnir sem skoruðu það. Sandra María Jessen skallaði boltann laglega fyrir Söndru Gutierrez í vítateignum sem gerði engin mistök og kláraði færið.

Leikurinn datt aðeins niður eftir markið og fátt markvert gerðist fram að leikhléinu. Í síðari hálfleik færðist aukin harka í leikinn. Tvisvar var brotið á Skagakonum svo þær þörfnuðust aðhlynningar sjúkraþjálfara en spjöld dómarans voru nægilega þung til að hann hefði þau ekki á loft.

Eftir að Þór/KA hafði verið heldur sterkara liðið framan af síðari hálfleik jöfnuðu Skagakonur á 58. mínútu. Megan Dunnigan fékk sendingu inn fyrir vörnina og sendi boltann í netið. Markið kveikti í liðsmönnum ÍA sem voru mun hættulegri í sínum sóknaraðgerðum en gestirnir allt til leiksloka. Þeim tókst hins vegar ekki að stela sigrinum og 1-1 jafntefli því niðurstaðan á Akranesvelli.

ÍA situr í botnsæti deildarinnar með fimm stig eftir ellefu leiki, einu stigi á eftir KR í sætinu fyrir ofan. Næsti mætir ÍA liði Selfoss á útivelli miðvikudaginn 17. ágúst næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir