Flenard Whitfield er nýjasti leikmaður karlaliðs Skallagríms.

Bandarískur framherji í Skallagrím

Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur samið við Flenard Whitfield um að leika með liðinu í Domino’s deild karla á vetri komanda. Flenard er 26 ára gamall Bandaríkjamaður, rúmir tveir metrar á hæð, eitt hundrað kíló að þyngd og leikur stöðu framherja.

Hann kemur frá Detroit í Michigan-fylki og lék með Western Michigan háskólanum á námsferli sínum þar sem hann skoraði ellefu stig og tók sex fráköst á lokaári sínu. Á sínum atvinnumannaferli hefur hann meðal annars leikið í Kanada og Ástralíu. Síðast lék hann með Orangeville A’s í kanadísku deildinni þar sem hann skoraði að 13,1 stig og tók 5,8 fráköst að meðaltali í leik.

Í tilkynningu frá kkd. Skallagríms segir að Flenard sé mikill íþróttamaður sem geti varist mörgum stöðum. Hann hafi einkar góða fótavinnu og sé skotmaður góður. Hann er væntanlegur í Borgarnes um miðjan næsta mánuð.

„Við bjóðum Flenard Whitfield velkomin í Borgarnes og væntum mikils af samtarfinu við hann á komandi leiktíð,“ segir í tilkynningu Skallagríms.

Líkar þetta

Fleiri fréttir