Úr síðasta heimaleik Víkings/ Ljósm. Alfons Finnsson.

Valur sigraði Víking Ólafsvík

Í gær léku lið Vals og Víkings í Ólafsvík í þrettándu umferð Pepsi deildar karla í knattspyrnu. Leikurinn fór fram í góðu veðri á Valsvelli. Síðasti leikur sem Valur vann tryggði þeim sæti í úrslitum bikarkeppninnar en Víkingur hefur verið í vandræðum í undanförnum leikjum og ekki unnið leik síðan í lok júní. Leikurinn endaði með nokkuð öruggum sigri Vals; 3-1.

Valsmenn hófu leikinn af miklum krafti og skoruðu fyrsta mark leiksins á 8. mínútu þegar Sigurður Egill Lárusson setti boltann í netið af stuttu færi eftir undirbúning Kristins Inga Halldórssonar. Á 23. mínútu fengu Valsmenn vítaspyrnu. Varnarmaður Ólafsvíkur stökk upp á bak Kristins Inga inni í teignum og vítaspyrna dæmd. Kristinn Freyr Sigurðsson tók spyrnuna og boltinn lak í netið, undir Martinez í markinu sem valdi rétt horn. Martinez var grátlega nálægt því að verja spyrnuna. Staðan var 2-0 þegar flautað vera til leikhlés.

Á 65. mínútu hleyptu gestirnir líf í leikinn þegar William Dominguez da Silva sendi boltann fyrir markið þar sem Pontus Nordenberg skallaði knöttinn í markið. Valsmenn voru fljótir að svara fyrir sig því fjórum mínútum síðar skoraði Kristinn Freyr sitt annað mark eftir undirbúning Sigurðar Egils. Lokatölur 3-1 fyrir Valsmönnum. Eftir frábæra byrjun í deildinni hefur Víkingur verið að færast hægt og rólega niður töfluna undanfarið og situr nú í áttunda sæti með 18 stig.

Næsti leikur Víkings er á heimavelli gegn ÍBV næstkomandi sunnudag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir