Skagamenn fagna fyrsta leiksins. Ljósm. gbh.

FH stöðvaði sigurgöngu Skagamanna

Skagamenn mættu í gærkvöldi liði FH í þrettándu umferð Pepsi deildar karla í knattspyrnu. Heimamenn höfðu unnið síðustu fimm leiki en FH var í efsta sæti deildarinnar og því sjálfstraust í báðum liðum. FH hafði betur í leiknum og sigraði 3-1 og stöðvaði því lengstu sigurgöngu Skagamanna í þrettán ár. Skagamenn skoruðu fyrsta mark leiksins. Þórður Þorsteinn Þórðarson, sem kom inn í lið Skagamanna fyrir Hall Flosason, fékk boltann hægra megin á vellinum töluvert langt frá vítateigslínu FH og nelgdi honum niðri í vinstra hornið. Stórglæsilegt mark hjá Þórði. FH jafnaði metin þegar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Þar var að verki markaskorarinn knái, Atli Viðar Björnsson. Eftir hornspyrnu FH fór boltinn að marki Skagamanna þar sem Árni Snær varði en náði ekki að halda boltanum. Eftir smá klafs kom Atli Viðar boltanum yfir marklínuna. Það var því jafnt þegar flautað var til hálfleiks; 1-1.

Í síðari hálfleik stjórnaði FH leiknum og voru mikið betri aðilinn. Það voru aðeins liðnar fimm mínútur af síðari hálfleik þegar Atli Viðar skoraði annað mark sitt. Bergsveinn Ólafsson, sem lék sem bakvörður í leiknum, gaf góða sendingu á kollinn á Atla Viðari sem fékk að skalla boltann óáreittur í mark Skagamanna. Atla Viðari virðist líka vel að spila gegn Skagamönnum en markið var hans fimmta í síðustu fjórum leikjum gegn Skagamönnum. Á 62. mínútu innsiglaði Jeremy Serwy svo sigur FH með fallegu skoti sem fór í stöngina og inn; óverjandi. Eftir þetta sköpuðu Skagamenn sér fá tækifæri og sanngjarn 3-1 sigur FH staðreynd.

Skagamenn héldu fimmta sætinu í deildinni þrátt fyrir tapið en þeir keppa næst í Grafarvogi gegn Fjölni næstkomandi sunnudag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Með sjaldgæfan blóðtappa

Skagamaðurinn Oliver Stefánsson, sonur Stefáns Þórs Þórðarsonar og Magneu Guðlaugsdóttur, og varnarmaður sænska úrvalsdeildarfélagsins Norrköping, verður frá næsta hálfa árið... Lesa meira