Forsvarsmenn íþróttahreyfingarinnar ásamt ráðherrum við undirritun samninganna í Laugardalnum síðastliðinn fimmtudag.

Framlög til afreksíþrótta fjórfaldast

Eins og greint var frá í síðasta tölublaði Skessuhorns voru undirritaðir samningar mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands síðastliðinn fimmtudag. Samningarnir gilda til þriggja ára og kveða á um stóraukið framlag íslenska ríkisins til afreksíþrótta á Íslandi. Framlagið mun hækka í áföngum úr 100 milljónum á fjárlögum síðasta árs í 400 milljónir á næstu þremur árum.

„Þetta verður algjör bylting fyrir okkur hjá ÍSÍ sem höfum haft úr allt of litlu að spila til að aðstoða sérsambönd ÍSÍ og þá afreksfólkið til að það geti helgað sig íþrótt sinni og náð sem bestum árangri,“ segir Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ. Hann segir margt afreksfólk hafa búið við það að meiri tími fari í að fjármagna ferðir, þjálfun og uppihald heldur en æfingar og undirbúning fyrir keppnir. Kostnaður sem fylgi keppnum, t.d. Ólympíuleikum, hafi oft og tíðum lent að töluverðu leyti á keppandanum sjálfum. „Það er allt of algengt að íslenskt afreksíþróttafólk hætti of snemma og samkvæmt því sem við höfum kannað er það oftar en ekki vegna erfiðleika við fjármögnun eða vanlíðan vegna fjárhagsáhyggja. Vonandi mun þessi samningur koma í veg fyrir mikið brottfall af fjárhagslegum ástæðum,“ segir Lárus.

Forsvarsmenn ÍSÍ telja því að hér sé um að ræða algera byltingu fyrir afreksíþróttir á Íslandi. Segir hann að nú færist Ísland nær því að geta byggt upp umgjörð fyrir afreksíþróttafólk í líkingu við það sem þekkist í nágrannalöndunum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir