F.v. Kristinn H. Guðbrandsson og Steindóra Steinsdóttir ásamt Sævari Frey Þráinssyni varaformanni KFÍA.

Steindóra og Kristinn taka við ÍA

Þórður Þórðarson óskaði nýverið eftir því að láta af störfum þjálfara meistaraflokks kvenna hjá ÍA af persónulegum ástæðum. Ágúst Valsson aðstoðarþjálfari Þórðar mun einnig láta af störfum á sama tíma. Gengið hefur verið frá samningum við Kristinn H. Guðbrandsson og Steindóru Steinsdóttur um að taka við þjálfun liðsins út keppnistímabilið.

Kristinn er 46 ára íþróttafræðingur með UEFA A gráðu í þjálfun. Kristinn var reynslumikill leikmaður á sínum tíma. Hann lék lengst af með Keflavík og á að baki 115 leiki með liðinu í efstu deild. Auk þess varð hann bikarmeistari með liðinu árið 1997. Kristinn hefur víðtæka reynslu af þjálfun, en hann var aðstoðarþjálfari hjá Keflavík og síðar Fylki í efstu deild. Auk þess hefur hann þjálfað meistaraflokka Víðis í Garði og Víkings Ó. Undanfarin ár hefur hann þjálfað yngri flokka hjá ÍA.

Steindóra er 44 ára íþróttafræðingur. Hún lék á sínum tíma yfir 100 leiki fyrir ÍA í efstu deild. Steindóra á að baki sex A-landsleiki fyrir Ísland og fjóra fyrir 20 ára landsliði Íslands. Hún hefur starfað lengi við kvennaknattspyrnu hjá ÍA, bæði sem þjálfari yngri flokka en einnig hefur hún aðstoðað við þjálfun meistaraflokks.

„Stjórn KFÍA vill nota tækifærið og þakka Þórði fyrir gott samstarf og framúrskarandi störf fyrir KFÍA. Ágúst fær sömuleiðis þakkir fyrir góð störf.  Stjórn óskar nýjum þjálfurum til hamingju með nýja starfið og hlakkar til samstarfsins,“ segir í tilkynningu frá KFÍA.

Undirbúningur að ráðningu framtíðarþjálfara meistaraflokks kvenna er hafinn í samráði við Jón Þór Hauksson yfirþjálfara félagsins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir