Aðalsteinn og Sigurður Bragi sigruðu í Skagafirði. Þeir leiða heildarkeppni Íslandsmótsins. Ljósm. gg.

Aðalsteinn og Sigurður leiða Íslandsmótið

Þriðja umferð Íslandsmótsins í rallý fór fram dagana 22. og 23. júlí í Skagafirði. Það var Bílaklúbbur Skagafjarðar sem stóð fyrir keppninni en þessi árvissa keppni vekur bæði áhuga og eftirtekt rallýáhugafólks þar sem skipulag og framkvæmd er ávallt til eftirbreytni. Það var því margt um manninn, tæplega tuttugu áhafnir voru mættar til leiks auk þjónustufólks og áhorfenda. Veður var ekki hagstætt, mikið rigndi og þokusúld lá yfir stórum hluta sérleiðanna. Aðstæður voru því erfiðar, vegir sleipir og skyggni lítið á köflum.

Fyrirfram var búist við harðri keppni um efstu sætin en rallý snýst ekki eingöngu um að aka hratt heldur einnig um ástand bifreiða. Strax á fyrstu sérleiðum féllu tvær sterkar áhafnir úr leik sökum bilana í bifreiðum þeirra en tvær aðrar bættust í þann hóp á laugardeginum.

Ljóst var við lok aksturs á föstudagskvöldið að Borgfirðingurinn Aðalsteinn Símonarson og Sigurður Bragi Guðmundsson leiddu keppnina. Þeir óku því hratt en öruggt á laugardeginum sem skilaði þeim að lokum fyrsta sæti með rúmlega 2 mínútna forskoti á Baldur Hlöðversson og Hönnu Rún Ragnarsdóttur sem urðu í öðru sæti. Í þriðja sæti urðu Sigurður Arnar Pálsson og Ragnar Bjarni Gröndal.

 

Keli vert með lengsta stökkið

Í jeppaflokki kepptu fjórar áhafnir en félagarnir Guðmundur Snorri Sigurðsson og Magnús Þórðarson sem óku á Cherokee, urðu í fyrsta sæti með 40 sek forskot á þá Þórð Ingvarsson og Björn Inga Björnsson sem óku á Mitsubishi Pajero. Keli vert og Þórarinn K. Þorkelsson misstu naumlega af þriðja sætinu til þeirra Péturs Ástvaldssonar og Snæbjörns Haukssonar en þeir urðu fyrir því óláni að þjófstarta og fá fyrir það refsingu.

Keli vert fór þó ekki verðlaunalaus heim því í minningu félagsmanns úr Bifreiðaklúbbi Skagafjarðar,Vilhjálms Sigurðar Viðarssonar, voru veitt verðlaun fyrir lengsta stökkið á Mælifellsdal. Eftir nákvæmar mælingar var ljóst að Keli og Þórarinn sem óku á Toyota Hilux stukku lengst, eða um 17 metra.

Sigurður Bragi og Aðalsteinn leiða nú í heildarkeppni Íslandsmótsins þegar það er rúmlega hálfnað en Keli vert og Þórarinn eru í öðru sæti til íslandsmeistara í jeppaflokki. Næsta keppni verður í lok ágúst, verður það þriggja daga keppni sem m.a. mun fara fram á Kaldadal.

Líkar þetta

Fleiri fréttir