Olga með tónleika í Stykkishólmi og Flatey

Sönghópurinn Olga Vocal Ensemble verður með tónleika í Stykkishólmskirkju fimmtudaginn 28. júlí kl. 20 og í Flateyjarkirkju á Breiðafirði laugardaginn 30. júlí kl. 18.

Olga Vocal Ensemble er alþjóðlegur sönghópur stofnaður árið 2012 í borginni Utrecht í Hollandi. Í hópnum eru tveir Íslendingar, tveir Hollendingar og Rússi sem ólst upp í Bandaríkjunum.  Strákarnir eiga það sameiginlegt að hafa allir lært hjá Jóni Þorsteinssyni. Síðustu þrjú sumur hefur hópurinn haldið í tónleikaferðlag um Ísland og engin breyting verður á því í ár. Víkingaþema verður á efnisskrá strákanna í sumar en öll lögin á efnisskránni hafa tengingu við lönd sem víkingar heimsóttu. Á nýjum geisladiski sem kom út fyrstu vikuna í júní verða lög á borð við karlakórslög eftir Grieg, Sibelius, lög eftir færeysk, íslensk, sænsk, eistnesk tónskáld og svo mætti lengi telja. Popplög sem munu heyrast á disknum eru til dæmis útsetningar á It’s oh so quiet sem Björk gerði frægt og Starálf eftir Sigur Rós en í september mun myndband við lagið vera frumsýnt. Fjármögnun á geisladisknum fór í gegnum hollensku hópfjármögnunarsíðuna www.voordekunst.nl.

Á efnisskrá sumarsins verður útsetning á laginu Feels like sugar eftir Hjaltalín í útsetningu Viktors Orra Árnasonar auk útsetningar Sólveigar Sigurðardóttur á syrpu (medley) eftir ABBA. Öllum Olgum verður að sjálfsögðu boðið á tónleika Olgu í sumar en það hefur verið venjan síðustu ár.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Krufning í FSN

Nemendur í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði voru önnum kafnir í einni skólastofunni í síðustu viku er fréttaritara Skessuhorns bar að... Lesa meira