Gaman saman vímuefnalaus

Hátíðin „Gaman saman vímuefnalaus“ verður haldin í annað sinn á Hlöðum í Hvalfjarðarsveit um verslunarmannahelgina. Hátíðin er fyrir alla þá sem vilja skemmta sér og hafa gaman saman án vímuefna. „Við sem sjáum um hátíðina fórum eiginlega af stað vegna þrýstings, við sáum að fólk vildi hafa svona hátíð þessa helgi. SÁÁ sá lengi um að hafa edrúhátíð um verslunarmannahelgina en gafst upp á því. Það var einfaldlega ekki að borga sig þar sem samkeppnin við stærri hátíðir var of mikil. Því tókum við ákvörðun síðasta sumar að prófa að halda svona litla vímuefnalausa fjölskylduhátíð og mætingin var mjög góð, um 500 manns,“ segir Hafþór Ingi Samúelsson einn af skipuleggjendum hátíðarinnar.

Dagskráin á Gaman saman hátíðinni er fjölbreytt og skemmtileg með gleðina í fyrirrúmi. Meðal þess sem boðið verður uppá er hláturjóga, 5 rythma dans, ratleikur, hæfileikakeppni barna og varðeldur. „Við verðum með 12 spora fundi reglulega alla helgina fyrir þá sem vilja og svo hef ég heyrt að Pokémon verði á svæðinu,“ segir Hafþór kátur.

Allar frekari upplýsingar um hátíðina má finna inn á Facebook viðburðinum Gaman saman vímuefnalaus um verslunarmannahelgina.

Líkar þetta

Fleiri fréttir