Svipmynd úr leiknum í gær. Ljósm. tfk.

Víkingur tapaði á heimavelli

Víkingur Ólafsvík tók á móti Breiðabliki í Pepsi deild karla í gær. Gestirnir voru ívið ákveðnari í sínum aðgerðum á meðan heimamenn lágu töluvert til baka. Fátt markvert gerðist í fyrri hálfleik en staðan var 0-0 þegar að dómarinn flautaði til leikhlés. Það sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik og Víkingar áttu í stökustu vandræðum með að skapa sér færi og náðu aldrei að ógna marki Breiðabliks að neinu ráði, nema þá helst með skotum fyrir utan teig sem að Gunnleifur Gunnleifsson markvörður Breiðabliks réði auðveldlega við.

Gestirnir brutu svo ísinn á 65. mínútu þegar að Árni Vilhjálmsson náði að skora og koma Breiðablik í 1-0. Heimamenn reyndu hvað þeir gátu en varnarmenn gestanna með Damir Muminovic, fyrrverandi leikmann Víkings, fremstan í flokki hleyptu þeim aldrei í gegn. Það var svo á 83. mínútu að Arnþór Ari Atlason bætti við öðru marki Breiðabliks og kom gestunum í 2-0 og úrslitin voru ráðin. Sanngjarn sigur Breiðabliks sem komst með sigrinum í þriðja sæti deildarinnar á meðan Víkingur Ólafsvík datt niður í það sjötta.

Næsti leikur Víkings er gegn Val miðvikudaginn 3. ágúst næstkomandi. Leikið verður á Hlíðarenda í Reykjavík.

Líkar þetta

Fleiri fréttir