Birgir Leifur og Ólafía Þórunn lyfta bikurum sínum.

Birgir Leifur varð Íslandsmeistari

Skagamaðurinn Birgir Leifur Hafþórsson, sem leikur fyrir Golfkúbb Kópavogs og Garðabæjar, sigraði Íslandsmótið í golfi sem var haldið dagana 21.-24. Júlí á Jaðarsvelli á Akureyri. Með sigrinum varð Birgir Leifur sá kylfingur sem oftast hefur orðið Íslandsmeistari í höggleik, alls sjö sinnum og bætti þar með met sem Björgvin Þorsteinsson setti árið 1977 en Úlfar Jónsson jafnað síðar.

Keppnin í karlaflokki var gríðarlega spennandi. Fyrir lokadaginn var Bjarki Pétursson í Golfklúbbi Borgarness í forystu ásamt Guðmundi Ágústi Kristjánssyni úr Golfklúbbi Reykjavíkur. Á þriðja keppnisdegi setti Bjarki Pétursson vallarmet á Jaðarsvelli þegar hann lék hringinn á 65 höggum eða fimm undir pari. Bjarki náði ekki að halda forystunni en það var mikil spenna þegar efstu menn spiluðu lokahringinn. Á síðari níu holunum náði Birgir Leifur sér í fjóra fugla og náði smátt og smátt að saxa á forystuna. Bjarki og Axel Bóasson, úr Golfklúbbnum Keili, höfðu báðir tækifæri á að jafna Birgi á síðustu tveimur holunum en nýttu ekki tækifærin. Birgir Leifur stóð uppi sem sigurvegari en þeir Axel og Bjarki léku bráðabana um annað sætið þar sem Axel hafði betur og Bjarki endaði því í þriðja sæti í ár.

 

Valdís Þóra önnur

Í kvennaflokki leiddi Valdís Þóra Jónsdóttir úr Golfklúbbnum Leyni fyrir lokahringinn en hún setti vallarmet á þriðja keppnisdegi þegar hún lék hringinn á 66 höggum. Ólafía Þórunn Kristinsson úr Golfklúbbi Reykjavíkur átti algjörlega frábæran lokahring. Á fyrstu níu holunum fékk hún fimm fugla og hélt forystunni allan hringinn eftir það. Hún jafnaði vallarmet Valdísar og setti um leið mótsmet með því að enda með skorið ellefu undir pari en Valdís Þóra lenti í öðru sæti með níu undir pari.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.