Lengsta sigurganga Skagamanna í efstu deild í 13 ár

Í dag mættu Skagamenn liði ÍBV á Akranesvelli í tólftu umferð Pepsi deildar karla. Skagamenn sem byrjuðu mótið illa og voru aðeins með fjögur stig eftir sjö umferðir hafa snúið við blaðinu í undanförnum leikjum. Þeir sigruðu lið ÍBV í dag 2-0 og hafa þeir því unnið fimm leiki í röð. Þetta er lengsta sigurganga Skagamanna í 13 ár en það var undir lok tímabilsins 2003 sem Skagamenn unnu síðast fimm leiki í röð. Eini leikmaður Skagamanna í dag sem lék einnig tímabilið 2003 er Garðar Bergmann Gunnlaugsson en Gunnlaugur Jónsson, þjálfari liðsins, var fyrirliði árið 2003.

Skagamenn stjórnuðu leiknum að mestu leyti í fyrri hálfleik og voru mjög hættulegir fram á við. Það kom ekki mörgum að óvart að Garðar Bergmann Gunnlaugsson skoraði fyrsta mark leiksins, það gerði hann á 17. mínútu. Garðar fékk boltann frá Tryggva Hrafni vinstra megin við teiginn; hann sneri sér í átt að markinu og negldi boltanum utan teigs í slána og inn. Gríðarlega fallegt mark og það virðist ekkert geta stöðvað markaskorun Garðars þessa stundina, hann er nú kominn með ellefu mörk í tólf leikjum.

Á 33. mínútu kom annað mark Skagamanna. Skagamenn fengu hornspyrnu þar sem Ármann Smári stangið sendingu Iain Williamson í átt að marki en Vestmanneyingar björguðu á línu. Boltinn barst þá út á kantinn til Jóns Vilhelms sem sendi hann aftur inn í og þar náði varnartröllið Ármann Smári öðrum skalla að marki og í þetta sinn endaði boltinn í netinu. Staðan 2-0 þegar Þorvaldur Árnason flautaði til hálfleiks.

ÍBV spiluðu betri fótbolta í síðari hálfleik en þeim fyrri. Þeir áttu erfitt með að skapa sér sóknarfæri og voru sóknir Skagamanna hættulegri þó þær væru færri en í fyrri hálfleik. Hálfleikurinn var einnig töluvert rólegri en sá fyrri.

Á 74. mínútu var Darren Lough sendur útaf með sitt annað gula spjald. Skagamenn voru allt annað en sáttir og dómurinn nokkuð umdeildur. Darren renndi sér í boltann fyrst en fór svo í manninn og mat Þorvaldur Árnason atvikið sem svo að um brot væri að ræða og Darren því sendur útaf. Eyjamenn voru því einum fleiri síðasta korterið og sókn þeirra varð þyngri það sem eftir var. Þó svo að sókn þeirra væri þung var lítið um hættuleg færi. Lokatölur urðu þær að Skagamenn sigruðu leikinn með tveimur mörkum gegn engu.

Skagamenn eru með sigrinum komnir upp í fimmta sæti deildarinnar, sex stigum frá toppliði FH en Skagamenn mæta einmitt FH í næstu umferð á Akranesvelli miðvikudaginn 3. ágúst.

Líkar þetta

Fleiri fréttir