Frá undirritun samningsins í gær. F.v. Atli Aðalsteinsson aðstoðarþjálfari, Arnar Víðir Jónsson, formaður kkd. Skallagríms, Magnús Þór Gunnarsson og Finnur Jónsson þjálfari.

Magnús Þór aftur til liðs við Skallagrím

Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur samið við Magnús Þór Gunnarsson um að leika með félaginu í Domino‘s deild karla næsta vetur. Á síðasta tímabili skoraði hann 10 stig, tók 2,2 fráköst og gaf 1,8 stoðsendingu að meðaltali í 20,4 mínútum í leik fyrir Keflvíkinga.

Magnús er reynslumikill leikmaður, 35 ára gamall, margfaldur Íslandsmeistari sem hefur lengst af sínum ferli leikið með Keflavík. Hann er Borgnesingum þó ekki ókunnugur, því hann lék með Skallagrími síðari hluta tímabilsins 2014-15. Magnús hefur lengi verið talinn einn af bestu skotmönnum í íslenskum körfubolta.
„Engum blöðum er um það að fletta að hér er um gríðarlega öflugan leikmann að ræða og er mikill fengur fyrir Skallagrímsliðið. Magnús hefur leikið fjölda stórleikja og unnið fjöldan allan af titlum á löngum og glæsilegum ferli,“ segir í tilkynningu frá kkd. Skallagríms. Magnús á einnig að baki fjölda landsleikja fyrir Íslands hönd, þar af nokkra sem fyrirliði. „Hann mun því bæta við mikilli reynslu og sigurhefð í ungt Skallagrímsliðið.“

Magnús mun einnig koma að þjálfun unglinga- og drengjaflokks Skallagríms.

Líkar þetta

Fleiri fréttir