Reykholtshátíð haldin tuttugasta sinni

Reykholtshátíðin er haldin í tuttugasta skipti nú um helgina. Hátíðin hefst í dag með opnunartónleikum kl. 20:00. Á dagskrá þeirra tónleika eru meðal annars Árstíðirnar eftir Vivaldi, en verkið verður flutt í heild sinni.

Heimamenn verða nokkuð áberandi á hátíðinni; opnunartónleikarnir hefjast á söng Reykholtskórsins undir stjórn Viðars Guðmundssonar og einnig mun Margrét Eggertsdóttir verða með fyrirlestur sem ber yfirskriftina „Það mikið elskaða skáld Hallgrímur Pétursson“ í Snorrastofu. Það verður því mikið um að vera í Reykholti um helgina en nánar er hægt að lesa um hátíðina á reykholtshatid.is og í Skessuhorni vikunnar.

Það er stórt ár í Reykholti í ár en ásamt því að Reykholtshátíðin fagnar stórafmæli þá heldur Reykholtskirkja einnig upp á tuttugu ára vígsluafmæli. Saga Reykholts er samofinn sögu kristninnar á Ísland. Allt frá því Íslendingar tóku upp kristni hafa staðið kirkjur í Reykholti. Breiðabólsstaðargoðar byggðu þar fyrst kirkju og fimm þeirra voru þar prestar. Sóknin var seld Snorra Sturlusyni árið 1206. Sagan er vel varðveitt í Reykholti og hófst uppbygging nýrrar kirkju ásamt Snorrastofu árið 1988 og lauk með vígslu árið 1996 á degi heilags Ólafs Noregskonungs. Ítarlega var sagt frá byggingunni og vígslu kirkjunnar í síðasta Skessuhorni.

Augnablikin og minningarnar sem tónleikagestir og listamenn hafa skapað á Reykholtshátíðinni í gegnum tíðina eru orðin ótalmörg og allt í því frábæra tónleikahúsi sem Reykholtskirkja er. Tónleikarnir eru orðnir 91 talsins og flytjendurnir 73 frá fjölmörgum löndum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Krufning í FSN

Nemendur í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði voru önnum kafnir í einni skólastofunni í síðustu viku er fréttaritara Skessuhorns bar að... Lesa meira