Drusluganga í Stykkishólmi í fyrsta sinn

Á morgun, laugardaginn 23. júlí, fer fram Drusluganga í Stykkishólmi. Gengið verður frá Freyjulundi/Hólmgarði í átt að höfninni klukkan 14:00. Hálftíma áður verður hægt að kaupa varning fyrir gönguna fyrir þá sem hafa áhuga. Druslugangan hefur verið haldin í Reykjavík undanfarin ár en markmið hennar er að færa ábyrgð kynferðisglæpa frá þolendum yfir á gerendur. Þetta verður þó í fyrsta sinn sem gangan verður haldin á Vesturlandi.

Aðstandendur göngunnar eru þau Alma Mjöll Ólafsdóttir og Bjarki Hjörleifsson. „Hugmyndin kviknaði þegar ég kom heim frá París á mánudaginn. Systir mín er ein af þeim sem stendur að göngunni í Reykjavík. Ég kíkti í heimsókn til hennar og var að tala um hvað mér þætti leiðinlegt að ég kæmist ekki í gönguna á laugardaginn því ég væri að vinna. Ég fékk þá hugmynd að reyna að halda Druslugöngu í Stykkishólmi á laugardaginn. Ég talaði við vinnuveitanda minn, hann Bjarka sem stendur að þessu með mér, og tilkynnti honum hugmyndina mína. Hann studdi þessa hugmynd og því næst fór ég að ræða við lögregluna og bæjarstjórann Sturlu Böðvarsson. Þeir tóku mjög vel í þetta og þetta er því gert í samráði við þá ásamt aðstandendum Druslugöngunnar í Reykjavík,“ segir Alma Mjöll.

„Okkur finnst að þetta málefni varði landsbyggðina einnig og það þarf að taka á þessu málefni þar líka. Þetta er eitthvað sem snertir alla, hvar sem þeir eru á landinu. Ég hef strax fundið það að það eru margir sammála mér því stuðningurinn sem ég hef fengið frá bæjarbúum er mikill. Það hefur komið mér mjög á óvart þar sem fyrirvarinn er mjög stuttur en við komumst að þeirri niðurstöðu að það er aldrei of seint að taka afstöðu með þolendum kynferðisofbeldis,“ segir hún. „Það er mjög fallegt og táknrænt að minni bæjarfélög taki þátt. Ég vil hvetja alla til þess að mæta í gönguna en einnig vil ég koma þökkum til bæjarbúa sem hafa tekið svo vel í þetta. Þetta er frábært bæjarfélag og það virðast allir vera með á nótunum um mikilvægi málefnisins,“ segir Alma að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Krufning í FSN

Nemendur í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði voru önnum kafnir í einni skólastofunni í síðustu viku er fréttaritara Skessuhorns bar að... Lesa meira