Glatt á hjalla á Reykhóladögum í fyrra.

Reykhóladagar hófust í dag

Byggðahátíðin Reykhóladagar er haldin hátíðleg dagana 21.-24. júlí. Á dagskrá er fjöldi viðburða víðs vegar um Reykhólasveit. Sú breyting verður frá fyrri árum að ekki verður formleg keppni um best skreytta húsið í Reykhólasveit. Íbúar eru þess í stað hvattir til að skreyta hús sín ánægjunnar vegna og njóta þess að gera fínt í hverfinu sínu í félagsskap góðra granna.

Reykhóladagar hófust í dag með með Bátabíói á Báta og hlunnindasýningunni á fimmtudag. Í kvöld verður bátasprell í Bjarkarlundi og brenna áður en Bjartmar Guðlaugsson heldur tónleika á Hótel Bjarkalundi.

Íbúar bjóða heim í súpu, sundlaugarfjör verður í Grettislaug og hverfakeppnin verður á sínum stað, en þar keppa sveitungar sín í millum í hinum ýmsu þrautum. Þaraboltinn er svo sér keppnisgrein, en það er knattspyrnuleikur við sérlega sleipar aðstæður. Þá verður hægt að spreyta sig í fótboltagolfi. Haldin spurningakeppni með Pub Quiz fyrirkomulagi og dansleikur með dúóinu Þórunni og Halla.

Laugardagurinn hefst á Reykhóladagahlaupinu þar sem hlauparar geta keppt í fjórum vegalengdum. Eftir hádegi hefst svo hin víðfræga dráttarvélaleikni á Reykhólum, þar sem keppt er í akstursleikni á dráttarvélum fornum. Kaffihlaðborð verður í á Báta- og hlunnindasýningunni frá hádegi þar til síðdegis. Uppboð verður á Seljanesi til styrktar langveikum börnum, en mikil leynd hvílir yfir því hvers konar munir verða upp boðnir. Síðdegis hefst karnival fyrir börnin í Hvanngarðabrekku með skottsölu og markaðsstemningu, síðan grillveislu og kvöldvöku. Sniglabandið heldur barnaball að kvöldvöku lokinni í íþróttahúsinu áður en meðalaldur gesta hækkar á stórdansleik sem stendur fram eftir nóttu.

Að sunnudeginum verður léttmessa í Reykhólakirkju áður en Reykhóladögum lýkur formlega með kassabílarallýi í Króksfjarðarnesi, venju samkvæmt. Nánar um dagskrá, tímasetningar og annað, er að finna hér.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Krufning í FSN

Nemendur í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði voru önnum kafnir í einni skólastofunni í síðustu viku er fréttaritara Skessuhorns bar að... Lesa meira