Hugur í innsiglingun Akraneshafnar í gærkvöldi. Svanfríður stýrir en Kristófer stendur frammi á og veifar til ættingja og vina sem biðu sæfaranna á bryggjunni.

Komin heim eftir tveggja ára siglingu

Hjónin og Skagamennirnir Kristófer Oliversson og Svanfríður Jónsdóttir komu til hafnar Akranesi í gær eftir tveggja ára siglingu um heimsins höf á skútunni Hug frá Reykjavík. Sigling þeirra hófst í Króatíu fyrir fyrir tveimur árum síðan. Þaðan sigldu þau til Kanaríeyja, svo Grænhöfðaeyja og þaðan til Santki Lúsíu í austurhluta Karabíska hafsins. „Þaðan förum við síðan hringinn í kringum hnöttinn, frá Sankti Lúsíu til Sankti Lúsíu. Það er hið eiginlega World Arc Rally sem við tókum þátt í með góðum hópi,“ segir Kristófer.

Tók siglingin kringum hnöttinn heila 15 mánuði. Að hringferðinni lokinni var haldið upp með karabísku eyjunum til Bermúda, þaðan upp með ameríkuströnd til Nova Scotia í Kanada síðan Nýfundnalands, Grænlands og þaðan til hafnar á Akranesi í gærkvöldi. „Við höfum verið í samfloti með þremur skútum á heimleiðinni. Við ætlum að samstilla okkur og sigla saman frá Akranesi til Reykjavíkur þar sem ferðinni lýkur formlega á morgun [í dag, 21. júlí: innsk. blaðamanns],“ sögðu Kristófer og Svanfríður í gærkvöldi.

„Þetta hefur verið stórkostlegt,“ sagði Svanfríður aðspurð um upplifun sína af ferðalaginu mikla. „Bæði lærdómsríkt og skemmtilegt,“ bætti Kristófer við.

 

Nánar í næsta tölublaði Skessuhorns sem kemur út miðvikudaginn 27. júlí.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Krufning í FSN

Nemendur í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði voru önnum kafnir í einni skólastofunni í síðustu viku er fréttaritara Skessuhorns bar að... Lesa meira