Megn í leik gegn FH. Mynd úr safni: GBH.

Skagakonur sigruðu sinn fyrsta leik í efstu deild í 16 ár

Skagakonur léku gegn KR í níundu umferð Pepsi deildar kvenna í gær á KR-vellinum í Vesturbæ Reykjavíkur. Fyrir leikinn höfðu Skagakonur ekki unnið leik í sumar og voru á botninum með eitt stig. Leitin eftir sigri Skagakvenna í úrvalsdeild var orðin býsna löng. Þrátt fyrir að hafa spilað í efstu deild árin 2005 og 2014 þá unnu þær síðast leik í efstu deild 20. júlí árið 2000 og því munaði einum degi að slétt 16 ár væru frá síðasta sigurleik Skagans í efstu deild þegar þær léku við KR í gær. Leikurinn árið 2000 var gegn liði Þór/KA og fór hann 2-1 fyrir ÍA og mörk Skagans skoruðu þær Áslaug Ragna Ákadóttir og Kolbrún Eva Valgeirsdóttir. Í leikmannahópnum í gær voru þrjár stúlkur sem fæddar voru sama ár og síðasti sigurleikur fór fram ásamt því kom dóttir Áslaugar við sögu. Eyðimerkurgöngunni er nú lokið því leiknum í gær lauk með sigri Skagakvenna 2-0.

Skagakonur byrjuðu leikinn af miklum krafti og strax á sjöttu mínútu leiksins fékk Jaclyn Pourcel boltann á vinstri kantinum; hún sendi boltann fyrir markið þar sem Megan Dunnigan tók á móti boltanum og smellti honum upp í hægra hornið þar sem markmaður KR átti litla sem enga möguleika að ná til boltans. Staðan orðin 1-0 fyrir Skagakonur. Nokkuð jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en engin mörk skoruð svo staðan var enn 1-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Eftir mikinn baráttuleik í síðari hálfleik þá innsigluðu Skagakonur sigurinn þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Aníta Sól Ágústsdóttir tók aukaspyrnu við miðlínu og gaf háann bolta fram. Nýi leikmaður Skagans Cathrine Dyngvold flikkaði boltanum áfram með skalla inn í teiginn þar sem boltinn barst til Megan Dunnigan sem lagði boltann snyrtilega í netið.

Lokatölur í leiknum 2-0 fyrir Skagakonur sem eru með sigrinum aðeins þremur stigum frá því að komast upp úr fallsæti. Þær eiga næst leik gegn FH á útivelli næstkomandi þriðjudag, 26. júlí, og sagði Þórður Þórðarson, þjálfari ÍA, í samtali við fotbolti.net að þar væri um úrslitaleik að ræða þar sem FH væri að berjast við falldrauginn líkt og Skagakonur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir