
Síðast fullt hús í Frostaskjóli 1987
Bæði karla- og kvennalið ÍA hafa borið sigurorð af erkifjendunum í KR á útivelli í sumar. Er það í fyrsta sinn síðan 1987 sem Skagaliðin tvö sækja fullt hús stiga í Frostaskjóli í efstu deildum karla og kvenna í knattspyrnu.
Megan Dunnigan skoraði bæði mörk ÍA þegar liðið vann KR 2-0 í gær. Var það jafnframt fyrsti sigur liðsins í efstu deild í 16 ár. Hefur Megan skorað öll þrjú mörk liðsins í sumar.
Karlaliðið sigraði KR í Frostaskjóli 23. júní síðastliðinn. Skoraði Garðar Gunnlaugsson bæði mörk ÍA í 2-1 sigri á síðustu tíu mínútunum eftir að Kennie Chopart hafði komið KR í 1-0 snemma leiks. Garðar hefur gert 10 af 14 mörkum liðsins það sem af er móti.
Föstudaginn 19. júní árið 1987 vann ÍA 2-1 sigur á KR í efstu deild kvenna. Ragna Lóa Stefánsdóttir og Ásta Benediktsdóttir skoruðu mörk Skagakvenna eftir að Helena Ólafsdóttir hafði komið KR yfir.
Karlalið ÍA mætti erkifjendunum úr KR þegar komið var fram á haust þetta sama ár, eða 23. ágúst 1987 og vann 3-2. Willum Þór Þórsson kom þeim röndóttu yfir áður en Sveinbjörn Hákonarson, Valgeir Helgi Barðason og Haraldur Ingólfsson gerðu út um leikinn með þremur mörkum á þremur mínútum um miðjan síðari hálfleik. Björn Arnar Rafnsson minnkaði síðan muninn fyrir KR á lokamínútu leiksins.