Þjálfarateymi karlaliðs Skallagríms á komandi vetri. Atli Aðalsteinsson aðstoðarþjálfari og Finnur Jónsson þjálfari. Ljósm. Skallagrímur.

Breytingar á þjálfarateymi Skallagríms

Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur gengið frá nýjum samningi við Finn Jónsson um þjálfun karlaliðs félagsins til 2019, eða næstu þriggja keppnistímabila. Finnur hefur þjálfað meistaraflokk Skallagríms frá því í ársbyrjun 2015. Hann var við stjórnvölinn þegar liðið tryggði sér sæti í Domino’s deild karla á nýjan leik eftir sigur í oddaleik í úrslitaeinvígi við Fjölni í úrslitakeppni 1. deildar. Finnur er einnig yfirþjálfari yngri flokka Skallagríms og hefur komið að þjálfun yngri landsliða Íslands.

Finni til aðstoðar verður Atli Aðalsteinsson en hann mun jafnframt leika með liðinu. Atli hefur þjálfað yngri flokka félagsins. Hann lék með Skallagrími síðasta vetur en meiddist á öxl undir lok tímabilsins og er nú í endurhæfingu vegna þeirra meiðsla. Vonir Skallagrímsmanna standa til að Atli geti spilað aftur á nýju ári.

Atli tekur við stöðu aðstoðarþjálfara af reynsluboltanum Hafþóri Inga Gunnarssyni, sem var spilandi þjálfari Skallagríms á síðasta tímabili. „Vill körfuknattleiksdeild Skallagríms þakka Hafþóri kærlega fyrir frábær störf og vonast deildin eftir því að fá að njóta krafta hans í framtíðinni,“ segir á facebook síðu Skallagríms.

Líkar þetta

Fleiri fréttir