Christian Liberato kýlir boltann frá marki sýnu í leiknum í gær. Ljósm. af.

Fyrsta tap Víkings á heimavelli í tvö ár

Víkingar tóku á móti Stjörnunni í Pepsi deild karla í knattspyrnu í gær. Stjarnan hafði sigur með þremur mörkum gegn tveimur. Var það fyrsta tap Víkinga á Ólafsvíkurvelli síðan Grindvíkingar síðan í ágúst 2014.
Leikurinn fór fremur rólega af stað en færðist heldur betur fjör í hann þegar korter var liðið frá upphafsflautinu. Þá áttu gestirnir skot að marki sem Christian Liberato varði glæsilega í horn. Eftir hornspyrnuna kom einmitt fyrsta mark leiksins. Boltinn sveif inn í teiginn þar sem Baldur Sigurðsson fékk óáreittur að hefja sig á loft og stangaði hann boltann í netið. 1-0 fyrir Stjörnuna. En heimamenn voru ekki lengi að svara. Aðeins tveimur mínútum síðar fengu Víkingar aukaspyrnu rétt utan teigs eftir að boltinn fór í hönd varnarmanns. Hrvoje Tokic tók spyrnuna og smellti boltanum upp í samskeytin. Glæsilegt mark.

Skömmu síðar vildu heimamenn fá vítaspyrnu þegar þeim fannst Tokic vera togaður niður en dómari leiksins var á öðru máli. Næst fengu gestirnir dauðafæri þegar þeir komust inn fyrir vörnina en boltinn fór yfir markið.
Á 29. mínútu komust Stjörnumenn yfir á nýjan leik og aftur eftir hornspyrnu. Boltinn sveif alla leið á fjærstöng þar sem Grétar Sigfinnur Sigurðarson kom og stýrði honum í netið af stuttu færi. Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik. Stuttu fyrir leikhlé var Hrvoje Tokic hins vegar vikið af velli. Hann féll í jörðina eftir skallaeinvígi við Baldur Sigurðsson. Eitthvað fór það í skapið á honum því þar sem hann lá í jörðinni sparkaði hann í Baldur með báða fætur á undan sér og fékk umsvifalaust að líta rauða spjaldið.

Síðari hálfleikur fór heldur rólega af stað og fátt markvert gerðist þar til á 65. mínútu. Þá jafnaði Þorsteinn Már Ragnarsson fyrir Víkinga. Hann fékk boltann skammt utan vítateigs, komst af miklu harðfylgi einn í gegnum vörnina og kláraði færið vel. En staðan var ekki jöfn lengi. Stjörnumenn skoruðu síðasta mark leiksins strax í næstu sókn. Stjörnumenn komust upp að endamörkum innan vítateigs, boltinn var sendur út í teiginn þar sem Arnar Már Björgvinsson kom á ferðinni og skoraði. Reyndist það vera lokamark leiksins og Stjarnan því fyrsta liðið til að leggja Víkinga á heimavelli í tvö ár.
Víkingur er eftir leik gærdagsins í 5. sæti deildarinnar með 18 stig eftir 11 leiki. Næst mæta þeir Breiðabliki, sunnudaginn 24. júlí næstkomandi, einnig á heimavelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir