Skagakonan Hallbera Gísladóttir, leikmaður Breiðabliks, fer framhjá Grétu Stefánsdóttur og Bergdísi Fanneyju Einarsdóttur í leiknum í gær. Ljósm. gbh.

Skagakonur töpuðu fyrir toppliði Blika

ÍA tók á móti sterku liði Breiðabliks í áttundu umferð Pepsi deildar kvenna í knattspyrnu í gærkvöldi. Liðin hafa háð sína baráttu í sumar á sitt hvorum enda deildarinnar, ÍA var fyrir leikinn á botninum en Breiðablik á toppnum. Því var ljóst að Skagakonur ættu erfiðan leik fyrir höndum og máttu þær að lokum sætta sig við tap, 0-3.

Blikastúlkur byrjuðu af krafti og virtust staðráðnar í að skora snemma leiks en Skagakonur lágu til baka og beittu skyndisóknum. Eftir 20 mínútna leik tók litlu að Hallbera Gísladóttir skoraði gegn sínu gamla félagi. Hún tók hornspyrnu og boltinn sveigði vel inn að markinu og virtist ætla að svífa alla leið í netið en Ásta Vigdís Guðlaugsdóttir varði boltann í stöngina. Gestirnir réðu ferðinni í leiknum eftir þetta og fengu nokkur ágæt færi en tókst ekki að koma boltanum framhjá Ástu Vigdísi í marki ÍA. Staðan í hálfleik var því markalaus.

Í síðari hálfleik tók við meira af því sama, Breiðablik sótti en ÍA varðist. Eitthvað varð undan að láta og Málfríður Erna Sigurðardóttir kom gestunum yfir eftir smá klafs í teignum. Skagakonur færðu sig framar á völlinn og freistuðu þess að jafna metin. Þær náðu ágætum kafla og tveimur marktilraunum en markvörður gestanna stóð sína plikt og varði. Næst áttu Blikastúlkur góða sókn og Svava Rós Guðmundsdóttir komst í dauðafæri en skaut boltanum yfir. Á 82. mínútu var síðan dæmd vítaspyrna eftir að boltinn fór í hönd varnarmanns ÍA. Fanndís Friðriksdóttir fór á punktinn, sendi boltann í netið og róðurinn orðinn þungur fyrir Skagakonur. Fimm mínútum síðar skoruðu gestirnir þriðja og síðasta mark leiksins. Þar var á ferðinni Guðrún Arnardóttir sem potaði boltanum í netið eftir smá atgang í vítateig ÍA. Lokatölur á Akranesvelli 0-3, Breiðabliki í vil.

Skagakonur eru því enn í 10. og neðsta sæti deildarinnar með eitt stig eftir átta leiki. Næst mæta þær KR þriðjudaginn 19. júlí í mikilvægum leik. Þær röndóttu eru í 9. og næstneðsta sæti deildarinnar og því tækifæri fyrir Skagakonur að láta til sín taka í botnbaráttunni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir