Hluti af afkomendum Skúla og Hrefnu saman kominn á bekknum góða. Ljósm. af.

Minningarbekkur vígður um Skúla Alexandersson

 

Minningarbekkur um Skúla Alexandersson, Strandamanninn og Sandarann, fyrrum oddvitann og alþingismanninn, var vígður við Bjarmahúsið á Hellissandi síðastliðinn föstudag. Anton Ingólfsson smíðaði bekkinn og var það Drífa dóttir Skúla, sem afhjúpaði bekkinn að viðstöddu fjölmenni.

Skúli fæddist og ólst upp á Ströndum, flutti til Hellissands árið 1952 eftir nám í Samvinnuskólanum til að vinna í Kaupfélagi Hellissands. Þar kynntist hann konu sinni Hrefnu Magnúsdóttir. Hann starfaði að sveitarstjórnarmálum og sat á Alþingi fyrir Vesturland. Skúli var athafnamaður á ýmsum sviðum allt til síðasta dags. Hann rak m.a. fiskvinnsluna Jökul hf og útgerð á Hellissandi. Þá rak Skúli ásamt eiginkonu sinni bókabúðina Gimli og gistiheimilið Gimli til margra ára. Skúli hafði mikinn áhuga á ferðaþjónustu og framgangi atvinnugreinarinnar og sá nauðsyn þess að byggja hótel í sveitarfélaginu. Var hann einn helsti hvatamaður að byggingu Hótel Hellissands. Skúli var vinsæll leiðsögumaður á Snæfellsnesi og þekkti þar hverja þúfu og hvern stein.  Hann var mikill áhugamaður um friðlýsingu lands. Fiskbyrgin á Gufuskálum og allt svæðið þar var honum t.d. mjög hugleikið. Einnig var hann hvatamaður að koma upp sjóminjasafni og sjómannagarði á Hellissandi, auk fjölda annarra verka, svo sem skógrækt og umhverfismálum. Skúli var sæmdur heiðursmerki hinnar Íslensku fálkaorðu árið 2011 fyrir störf sín í þágu atvinnulífs, menningar og sögu heimabyggaðar. Þess má geta að Skúli hefði orðið 90 ára á þessu ári, en hann lést á síðasta ári. Ævinminningabókin Þá hló Skúli, kom út fyrir síðustu jól, en hana skráði Óskar Guðmundsson rithöfundur í Véum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Krufning í FSN

Nemendur í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði voru önnum kafnir í einni skólastofunni í síðustu viku er fréttaritara Skessuhorns bar að... Lesa meira