Íslandsmót yngri flokka hefst á morgun

Á morgun, fimmtudaginn 14. júlí, hefst að vindási í Borgarnesi Íslandsmót yngri flokka í hestaíþróttum 2016. Keppni hefst kl. 9.00 með forkeppni í fjórgangi unglinga og stendur yfir til sunnudagsins 17. júlí. Gestgjafar mótsins eru félagar í Hestamannafélaginu Skugga í Borgarnesi. Alls bárust mótsstjórn rúmlega 530 skráningar í Íslandsmótið og því ætti að verða margt um manninn og glatt á hjalla í Borgarnesi næstu daga.

Undirbúningur gengur vel og er á lokametrunum. Þó er vakin athygli á því að keppnisvöllurinn verður lokaður vegna undirbúnings frá klukkan 17 í dag, miðvikudag, þar til vinnu lýkur. Að vinnu lokinni má nota völlinn til æfinga.

Tjaldsvæði ætlað gestum Íslandsmótsins er á túni í Kárastaðalandi. Til að komast þangað er beygt upp afleggjara við Atlantsolíu. Þar verður hægt að tengjast rafmagni gegn vægu gjaldi og komast á salerni. „Það er von framkvæmdanefndar að keppendur og gestir eigi eftir að eiga hér í Borgarnesi ánægjulega daga framundan og mun nefndin leggja sig fram um að svo megi vera,“ segir í tilkynningu frá framkvæmdastjórn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir