Garðar Gunnlaugsson hefur skorað sex mörk í síðustu þremur leikjum. Hann skoraði einnig sitt fimmtugasta mark í efstu deild á móti Breiðabliki.

Skagamenn sigruðu sinn þriðja leik í röð

Skagamenn er á miklu skriði þessa dagana en þeir unnu sinn þriðja leik í röð þegar þeir mættu Breiðabliki í tíundu umferð Pepsi deild karla í gærkvöldi. Skagamenn sigruðu leikinn sem fram fór á Kópavogsvelli 1 – 0 með marki Garðars Gunnlaugssonar. Með sigrinum hoppuðu Skagamenn upp um tvö sæti og eru nú í áttunda sæti með þrettán stig.

Blikar byrjuðu leikinn vel og fyrstu tíu mínúturnar var nokkuð þung sókn að marki Skagamanna. Á upphafsmínútum leiksins vildu Skagamenn fá vítaspyrnu þegar Jón Vilhelm féll við í teignum en dómarinn dæmdi ekkert. Eftir ellefu mínútna leik fengu Skagamenn aukaspyrnu við endalínu hægra megin. Iain Williamson tók spyrnuna og sendi boltann fyrir; Garðar Gunnlaugsson hoppaði manna hæst og glæsilegur skalli hans fór í bláhornið. Staðan orðin 1 – 0 Skagamönnum í vil. Garðar er sjóðandi heitur í markaskorun þessa dagana en í síðustu þremur leikjum hefur hann skorað sex mörk; allt í allt hefur hann skorað níu mörk í deildinni sem gerir hann að markahæsta leikmanni deildarinnar. Það er einnig vert að nefna það að markið var fimmtugasta mark Garðars í efstu deild.

Blikar voru mikið meira með boltann í fyrri hálfleik en náðu að skapa sér fá góð marktækifæri. Skagamenn beittu hröðum upphlaupum og voru þau alltaf ógnandi þó lítið hafi orðið úr þeim. Staðan þegar flautað var til hálfleiks 1 – 0 fyrir Skagamönnum.

Seinni hálfleikurinn var ein allsherjar sókn Blika. Þeir sóttu án afláts að marki Skagamanna. Skagamenn vörðust og voru mjög baráttuglaðir, þeir gáfu ekki tommu eftir. Þrátt fyrir þunga sókn Blika náður þeir, rétt eins og í fyrri hálfleik, ekki að skapa sér dauðafæri og voru fyrirgjafir þeirra oft á tíðum mjög slakar. Jonathan Glenn kom boltanum í mark Skagamann á 88. mínútu en var réttilega dæmdur rangstæður.

Skagamenn náðu að halda markinu hreinu í leiknum og lauk honum með 1 – 0 sigri. Gríðarlega sterkur sigur hjá Skagamönnum sem taka á móti Valsmönnum á heimavelli næstkomandi sunnudag, 17. júlí.

Líkar þetta

Fleiri fréttir