Vigdísarvöllur sem Ólafur Jóhannesson vann að kosningasumarið 1980.

Vigdísarvöllur og Guðnagrund í Ausu

Laugardaginn 29. júní árið 1980 vakti Ísland athygli umheimsins, líkt og nú. Þá var Vigdís Finnbogadóttir kjörin forseti Íslands. Í þessum kosningum bar hún sigurorð af þremur körlum. Dagana fyrir kosninguna starfaði Ólafur Jóhannesson bóndi og vélamaður á Hóli í Lundarreykjadal að jarðvinnslu fyrir bændurna Jón og Auði í Ausu. Við það verk var hann vopnaður jarðýtunni Caterpillar D 6B frá fyrirtæki hans og félaga; Jörva á Hvanneyri.

 

Kaustu kerlinguna?

Áður en verkið hófst spurði ýtumaður Jón bónda hvernig hann vildi að spildan liti út að verki loknu, þ.e.a.s. hvaða paragrafi í gæðahandbókinni skyldi fylgt. Jón gaf skýrt svar, en þó í véfréttarstíl: „Ég vil að spildan verði þannig úr garði gerð að nemendur á Hvanneyri þurfi ekki á aðra bæi að sjá vel mótaða túnspildu.“ Ólafur vann að verkinu í nokkra daga og lagði sig fram um að verða við óskum Jóns. Að hans sögn runnu 800 lítrar af dieselolíu gegnum spíssa vélarinnar meðan á vinnslunni stóð. Á kjördag brá Ólafur sér frá og kaus sér nýjan forseta. Er hann kom til baka spurði Jón hann formálalaust þessarar frómu spurningar: „Kaustu kerlinguna?“ Gekkst ýtumaður greiðlega við því.

Þessi kosningaspilda hefur nú góðan ávöxt borið starfstíma tveggja forseta og er ekkert lát þar á. Enn er kjörinn nýr forseti og enn er færður út „akurlendis jaðar“ í Ausu. Og þótt Jón sé ekki lengur í kallfæri, var reynt að fylgja gamalli forsögn hans. „Að þurfa ekki á aðra bæi..“ Jarðýtunni, að vísu nokkru yngri vél en Ólafur forðum, stýrði að þessu sinni Haukur Júlíusson Jörvamaður, sem jafnframt rifjaði upp þá frásögn sem að framan greinir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Krufning í FSN

Nemendur í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði voru önnum kafnir í einni skólastofunni í síðustu viku er fréttaritara Skessuhorns bar að... Lesa meira