Markalaust jafntefli í Vesturbænum

Fyrr í dag mættust KR og Víkingur Ólafsvík í tíundu umferð Pepsi deildar karla á KR-vellinum í Vesturbænum. Fyrir leikinn voru Víkingar í þriðja sæti deildarinnar með 17 stig en KR í tíunda með níu stig. Willum Þór Þórsson stýrði liði KR liðinu í fyrsta sinn á þessu tímabili í deildinni eftir að hann var ráðinn inn sem þjálfari á dögunum. KR hefur átt í erfiðleikum með að skora í deildinni og hafði allt KR liðið aðeins skorað einu marki meira en Hrovje Tokic, sóknarmaður Víkinga, á tímabilinu. Það varð engin breyting þar á eftir leikinn í dag þar sem honum lauk með markalausu jafntefli en þrátt fyrir það var hann mjög fjörugur á köflum.

KR byrjaði leikinn betur og sóttu mikið upp hægri vænginn og náðu að skapa hættu. KR áttu hættulegt færi sem kom eftir eina af sóknum þeirra hægra megin á vellinum. Á 16. mínútu sendi Morten Beck, hægri bakvörður KR, boltann inn í teiginn þar sem Kennie Chopart náði skallanum sem fór naumlega fram hjá.

Eftir þetta pressuðu Vesturbæingar stíft á Ólsara. Víkingur tók sér nokkuð langan tíma í allar aðgerðir og kom upp óvenjulegt atvik á 25. mínútu þegar Pontus Nordenberg fékk tiltal frá dómara leiksins í einu innkastinu vegna þess hve langan tíma hann tók í það; þetta var í annað sinn í leiknum sem dómari leiksins ýtti á eftir honum.

Eftir hálftíma leik var leikurinn orðinn jafnari. KR átti þó besta færi hálfleiksins á 42. mínútu. Finnur Orri komst bakvið vörnina hægra megin og renndi boltanum á Præst sem skaut að marki en boltinn fór naumlega fram hjá.

Staðan var 0 – 0 þegar flautað var til hálfleiks. Síðari hálfleikurinn átti eftir að verða töluvert líflegri.

KR byrjaði síðari hálfleikinn með látum. Á upphafsmínútum hálfleiksins átti Kennie Chopart ágætis skot að marki úr þröngu færi við endalínu en Cristian í marki Ólafsvíkur varði vel.

Liðin skiptust á að sækja lengstan hluta hálfleiksins. Á 59. mínútu komst Þorsteinn Már Ragnarsson á ferðina fyrir Víking og stefndi að vítateignum, hann lék á varnarmann KR og tók skotið þegar hann var kominn inn í vítateiginn en boltinn hafnaði í þversláni.

Skömmu síðar féll Tokic við í teginum og vildi hann fá vítaspyrnu en ekkert var dæmt.

Besta færi Víkinga kom á 83. mínútu. Þorsteinn Már tók enn einn sprettinn í leiknum og náði góðri sendingu fyrir markið þar sem Tokic skallaði boltann en náði ekki að stýra honum á markið.

Þremur mínútum var bætt við leikinn og reyndust þær mínútur nokkuð spennuþrungnar. Á 90. mínútu komst Guðmundur Andri Tryggvason inn í teig Víkinga og fór framhjá Tomasz Luba en féll síðan við og vildu leikmenn KR meina að Tomasz hafi brotið á Guðmundi en dómarinn dæmdi ekkert.

Lokafæri leiksins átti KR, eftir atgang í teignum barst boltinn á Indriða Sigurðsson sem átti gott skot sem Cristian varði meistaralega í markinu. Lokatölur 0 – 0. Víkingur heldur þriðja sætinu en KR fer upp fyrir ÍA í níunda sætið með betri markatölu en Skagamenn eiga leik til góða.

Næsti leikur Víkinga er gegn liði Stjörnunnar á útivell eftir viku.

Líkar þetta

Fleiri fréttir