Leirlistakonan Guðbjörg Björnsdóttir heldur sýningu á munum sínum í Leifsbúð. Mun sýningin standa til 17. júlí næstkomandi. Ljósm. Steinþór Logi Arnarsson.

Leirlistasýningin „auður“ opnuð í Leifsbúð á morgun

Guðbjörg Björnsdóttir leirlistakona í Sælingsdalstungu mun á morgun, laugardaginn 9. júlí, opna sýninguna „auður“ í Leifsbúð í Búðardal. Sýningin opnar á morgun klukkan 14:00 og verður opið til klukkan 22:00 annað kvöld. Er opnunin liður í bæjarhátíðinni Heim í Búðardal sem haldin er um helgina. Guðbjörg segir að nafnið „auður“ hafi lengi verið sér ofarlega í huga. „Móðir mín hét Auður og sýningin er til minningar um hana, en hún var skírð eftir Auði djúpúðgu landnámskonu í Dölum. Síðast en ekki síst er nafnið vísun í auðinn sem við höfum hér í jörðinni, það er að segja leirinn,“ segir hún.

Til sýnis verða verk úr steinleir, postulíni og jarðleir, þar á meðal úr Dalaleirnum svokallaða. Hún á sterka tengingu við leirinn í Búðardal og segir að beinast hafi legið við að hún færi að vinna með hann. „Ég elst upp í Búðardal frá þriggja ára aldri og hef verið að vinna með leirinn frá því ég var sex eða sjö ára gömul. Þegar ég var barn var hægt að leika og drullumalla með leirinn, móta hann og svo þornaði hann bara í sólinni,“ segir Guðbjörg og bætir því við að sýningarstaðurinn sé mjög viðeigandi. „Því hér í börðunum fyrir ofan Leifsbúð er mikið af jarðleir,“ segir hún.

Gestum gefst einnig kostur á að kynna sér vinnuferlið, því Guðbjörg ætlar hafa skissubækur sínar meðferðis og leyfa fólki að fletta þeim. Einnig hyggst hún sýna tilraunaferlið og vinnuna sem tengist vinnslu á Dalaleirnum, sýna prufur, tilraunir og niðurstöður þeirrar vinnu. „Það er mjög þægilegt að geta farið út í búð og keypt leir og glerung í pakka. En það er skemmtilegra í þessu starfi að vinna hráefnið frá grunni. Fara út með svartan ruslapoka og skóflu, hreinsa leirinn, sigta og þurrka áður en hægt er að fara að skapa úr honum,“ bætir hún við. „Hugmyndin var alltaf sú þegar ég byrjaði í jarðleir að búa til leirmassa úr Dalaleirnum sem hægt væri að hella í mót og steypa úr. Það hefur gengið ljómandi vel og er spennandi verkefni sem er ekki lokið. Góður steypumassi er kominn en vinna með glerunginn stendur enn yfir,“ segir Guðbjörg.

Þeim sem ekki eiga kost á að berja sýningun augum á morgun er bent á að hún verður opin í Leifsbúð til 17. júlí næstkomandi, alla daga frá klukkan 12:00 til 18:00. „Ég þakka rekstraraðilum Leifsbúðar kærlega fyrir að leyfa mér að sýna í salnum og einnig Byggðasafni Dalamanna fyrir að lána muni úr safninu,“ segir Guðbjörg að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir