Fella þurfti niður Jökulmíluna vegna veðurs

Jökulmílan er ein lengsta hjólreiðakeppni fyrir einstaklinga sem haldin er hér á landi. Hún er haldin á Snæfellsnesi ár hvert. Hjólaðar eru rétt rúmlega 100 enskar mílur, eða 162 km. Lagt er af stað frá Grundarfirði, hjólað til vesturs gegnum Rif og þaðan fyrir Snæfellsjökul, til baka eftir suðurströnd Snæfellsness og norður Vatnaleið áður en komið er í mark í Grundarfirði. Einnig er hjóluð hálf Jökulmíla, 80 km leið frá Grundarfirði í Stykkishólm og til baka, sem og Mílusprettur, ætlaður yngri þátttakendum.

Keppnin er haldin í nánu samstarfi við Stykkishólmsbæ, Grundarfjarðarbæ og Snæfellsbæ. Sveitarfélögin styrkja verkefnið og segir Örn Sigurðsson, einn skipuleggjenda keppninnar, að þeir peningar hafi farið í að styrkja viðveru björgunarsveitanna í brautinni á meðan keppni stendur. Það kom sér vel þegar keppnin var haldin þetta árið, síðasta laugardag, því vegna veðurs neyddust skipuleggjendur til þess að fella niður hina eiginlegu Jökulmílu. Hættulegir sviptivindar gerði hjólreiðaköppum erfitt fyrir. Þrátt fyrir það ganga aðstandendur viðburðarins og keppendur sáttir frá borði. Keppt var í hálfri Jökulmílu og Míluspretti, og þátttakan var prýðileg, alveg sambærileg við síðasta ár. „Þetta gekk ágætlega úr því sem komið var,“ segir Örn. „Hálfa Jökulmílan gekk vel. Veðrið á norðanverðu nesinu var alveg ágætt og allir kláruðu. Þeir krakkar sem tóku þátt í Mílusprettinum voru glaðir og voru með verðlaunapeningana á sér langt fram á kvöld,“ segir hann ánægður. „En hvað varðar heilu Jökulmíluna þá voru vindstrengir til staðar á sunnanverðu nesinu sem voru illviðráðanlegir. Þegar tveir hjólarar höfðu fallið í götuna aðeins vegna vinds þá var ákveðið að blása hana af, en örfáir kláruðu þó hringinn,“ útskýrir Örn.

Þegar keppnin hafði verið blásin af hófust aðgerðir við að ná keppendum í hús. Örn segir að það hafi gengið vel. „Það gekk alveg ótrúlega vel með hjálp heimamanna á Snæfellsnesi og björgunarsveitanna Lífsbjargar og Berserkja, sem voru með viðveru í brautinni. Allir voru af vilja gerðri að koma öðrum til aðstoðar,“ segir hann.

 

Almenn ánægja meðal keppenda

Að keppni lokinni var öllum hjólagörpum boðið upp á kjötsúpu, en Golfklúbburinn Vestarr sá um veitingarnar sem og drykkjarstöðvarnar í brautinni. Keppendur voru að sögn Arnar almennt sáttir, þrátt fyrir að fella hafi þurft niður keppni. „Við höfum ekki fengið að heyra annað frá keppendum að þeir hafi verið ánægðir með ferðina vestur. Einnig er almenn ánægja með að keppni í Jökulmílunni hafi verið blásin af. Það var það eina skynsamlega í stöðunni og góð ákvörðun,“ segir hann og bætir því við að stefnan sé að halda keppnina aftur á næsta ári. „Snæfellsnesið er rosalega fallegur staður að koma á og heimsækja. Við Hjólamenn, sem erum að skipuleggja þennan viðburð, erum með Þingvallakeppnina líka, þar sem hjólaðir eru nokkrir hringir í þjóðgarðinum. Við erum alveg á því að þetta séu tveir fallegustu hringir á landinu til að hjóla á. Það er alltaf tekið vel á móti okkur á Snæfellsnesi og við erum farin að hlakka til næsta árs,“ segir Örn Sigurðsson að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir