Missti tengslin við framliðna en elskar ljóðagerð og ljósmyndun

Kristjana Halldórsdóttir er 47 ára Skagakona sem hefur vakið talsverða athygli inn á Facebookhópnum „Ég er íbúi á Akranesi“. Í hópnum eru margir Skagamenn og er allt á milli himins og jarðar sem kemur upp í umræðunni. Í bland við deilur um fiskilykt og hundaskít á gangstígum léttir Kristjana fólki lundina með ljóðum og ljósmyndum. „Ég dustaði rykið af myndavélinni fyrir nokkrum mánuðum og fór að taka ljósmyndir. Ég er mjög hvatvís og fór fljótlega að deila þeim á hópinn og fékk góð viðbrögð. Ég hef næmt auga fyrir því sem birtist í náttúrunni og því sem er öðruvísi,“ segir Kristjana um ljósmyndunina.

„Ég hef verið lengur í ljóðagerðinni og fór að yrkja af fullum krafti í kringum 2008. Ég vil meina að ljóðin mín séu limrur og standist ekki allar reglur í ljóðagerð. Reyndari menn í ljóðagerð gætu eflaust hrist hausinn yfir einhverjum stílbrotum mínum. Ljóðin eru engu að síður tjáningarform fyrir mig. Það sem ég yrki um fer eftir því hvernig mér líður. Ljóðagerðin er ágætis meðal, það veitir manni hugarró að yrkja. Það hafa margir verið ánægðir með ljóðin og það sem gefur mér mest er þegar fólk getur tengt við ljóðið og upplifað það eins og það sjálft hafi ort það. Ég hef einnig fengið slæma dóma frá fólk en ég reyni að leiða slíkt hjá mér. Ég les reyndar ekki mikið af ljóðum sjálf en þó eitthvað og reyni að fá innblástur frá þeim,“ segir Kristjana sem hefur einu sinni reynt að gefa út ljóðabók. „Ég sendi ljóðin mín á bókaforlag eitt sinn en fékk neitun frá því forlagi þar sem þeir voru ekki að leita að slíku þá. Ég hef ekki reynt að gefa út ljóðabók síðan en það er draumurinn,“ segir hún.

 

Missti tengslin við framliðna

Kristjana er mjög fjölhæfur einstaklingur og eitt af því sem hún hefur lagt fyrir sig er spálestur í bolla. „Þegar mamma lést fyrir rúmu ári síðan varð ég mjög næm. Það var eins og einhver gátt hafi opnast. Ég hafði verið næm alla tíð en fyrir ári náði ég betri tengslum við framliðna. Ég fór að nýta það í að lesa í bolla og það gekk vel. Það var ekki allt sem ég sá sem rættist. Ætli það hafi ekki verið sirka helmingur sem rættist og helmingur sem gerði það ekki. Ég tel mig hins vegar ekki vera skyggna; ég sé ekki látið fólk með eigin augum heldur veit ég af því og heyri.“

Kristjana segist vera hætt að lesa í bolla. „Ég vaknaði einn daginn og þá var bara þögn. Fólkið að handan var orðið ósátt við mig og ég veit hvers vegna það var. Ég hafði ofnotað hæfileikana mína og hafði ítrekað látið ókunnugt fólk vita af því sem ég heyrði að handan um það. Fólkið að handan var ekki sátt með þetta, maður má ekki misbeita þessum hæfileikum, fólk þarf að vilja heyra. Þetta var hvatvísin í mér. Ég held samt sem áður að ég geti opnað fyrir þetta aftur einn daginn. Ef ég færi til miðils held ég að ég gæti komist í samband við framliða aftur. Ég finn ennþá fyrir þeim og ég veit af þeim.“

 

Elskar að skapa

Kristjana vinnur sem bréfberi hjá Íslandspósti og kann vel við sig í starfi. „Ég kann mjög vel við mig í vinnunni og í bæjarfélaginu. Ég flutti til baka á Akranes fyrir um tveimur árum. Ég hafði áður búið í Reykjavík og ég og sambýlismaðurinn minn kunnum ekkert sérstaklega vel við okkur þar. Okkur líður mikið betur á Akranesi og erum meira fyrir minni samfélög. Hér á Akranesi er gott að búa.“

Kristjana er þó ekki alveg viss hvort hún sé í framtíðarstarfinu sínu eins og stendur. „Draumurinn er alltaf að fá að vinna við sköpun og ef ég fengi tækifæri til þess að prófa að vinna við ljósmyndun eða ljóðagerð væri það alveg frábært og ég myndi líklega stökkva á það tækifæri. Ég elska að skapa og búa til. En eins og ég segi; mér líður afskaplega vel á þeim stað sem ég er á í dag,“ segir hún að endingu.

Að endingu birtum við eitt ljóða Kristjönu; bros:

 

Ekki skaltu brosið spara
hafðu frekar tvö til vara
því brosið bjarta sem þú hefur
er besta gjöfin sem þú gefur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir