Augu heimsins hvíla á Íslandi í hinni ýmsu mynd. Hér eru fréttamenn að ræða við íslenska þjálfarann. Á leiknum sl. miðvikudagskvöld á Akranesi var frönsk sjónvarpsstöð að taka upp ítarefni um íslenska boltann og spyrja: „Hvernig er þetta hægt?“

Frönsk sjónvarpsstöð tók upp leik ÍA og Stjörnunnar

Velgengni karlalandsliðsins í knattspyrnu á Evrópumótinu í Frakklandi hefur vakið heimsathygli. Mönnum leikur forvitni á að vita hvernig svo fámenn þjóð geti náð slíkum árangri. Á miðvikudaginn síðastliðinn lauk níundu umferð Pepsi deildar karla með leik ÍA og Stjörnunnar á Akranesvelli. Leiknum var sjónvarpað á Stöð2 sport en þeir voru þó ekki eina sjónvarpsmennirnir á svæðinu. Franska sjónvarpsstöðin TF1 var einnig að taka upp á meðan á leik stóð. TF1 vann að innslögum í dægurmálaþátt á stöðinni. Meginþema innslaganna er fótboltamenningin á Íslandi og hvernig stemningin er í kringum EM. Ástæðan fyrir að ÍA – Stjarnan varð fyrir valinu er sú að sjónvarpsstöðin ætlaði að reyna að fanga hvernig umgjörðin og stemningin í kringum leiki hérlendis væri. Auk þess að taka upp á meðan leik stóð voru tekin viðtöl við m.a. Helgu Sjöfn Jóhannesdóttur formann ÍA og Gunnlaug Jónsson þjálfara. Frönsku sjónvarpsmennirnir höfðu einnig mikinn áhuga á Akraneshöllinni og telja að svo góð inniaðstaða til æfinga og keppni hafi mikið að segja um velgengni knattspyrnunnar hér á landi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir